Jón Vilhálmsson lést á líknardeild Landsítalans föstudaginn 13. nóvember. Úförin fer fram frá Árbæjarkirkju mánudaginn 23. nóvember kl. 13 og verður streymt af : youtu.be/JLunPCX_xik .

Foreldrar sem eru tilbúnir til að fórna tíma sínum fyrir heildina eru ekki á hverju strái. Slíkir einstaklingar eru dýrmætir fyrir félagasamtök eins og Fylki.  Jón var slíkur einstaklingur, einn af þeim sem var óhræddur við að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið og gerði það vel og um langt árabil. Hann var ötull stuðningsmaður félagsins og byrjaði að taka þátt í störfum foreldraráða eins og svo margir fórnfúsir foreldrar gera. Árið 2007 tók hann að sér gjaldkerastöðu BUR eða Barna og unglingaráðs knattspyrnudeildar. Eftir nokkur ár í því hlutverki, sem er ærið, tók hann að sér formennsku í ráðinu og gegndi því í þrjú ár. Sem slíkur sat hann í stjórn Knattspyrnudeildar til loka árs 2012. Störf hans fyrir félagið voru ómetanleg, hvort sem það var utanhald um einstakar fjáraflanir, innheimta æfingagjalda eða rekstraráætlanir, allt var unnið að mikilli nákvæmni og fagmennsku. Hann hafði sterkar skoðanir á hvernig best yrði haldið utanum hlutina og fékk þar ýmsu framgegnt.

Jón fékk afhent silfurmerki félagsins árið 2010 fyrir vel unnin störf.

 

Andlát Jóns Vilhjálmssonar kom okkur  í stjórn deildarinnar í opna skjöldu.  Hann var oft á vappi í kringum völlinn s.l. ár til að fylgjast með leikjum Villa og var þá spjallað í léttum dúr um heima og geima og deildina sem er okkur svo kær. Tíminn flýgur og á tímum Covid er fólk að hittast minna og því urðu samverustundir ekki fleiri.

Jóns Vilhjálmsonar verður sárt saknað af Fylki.

Elsku Rósa, Vilhjálmur, Svavar og Erna Dís og barnabörn, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur við fráfall Jóns.

Fyrir hönd Knattspyrnudeildar Fylkis

Kjartan Daníelsson, formaður

Andrés Már leggur skóna á hilluna.
Leikjahæsti leikmaður Fylkis í efstu deild, Andrés Már Jóhannesson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Andrés hefur reynst Fylki frábærlega, spilað 191 leik í efstu deild og þjónað sínu félagi vel.
Andrés spilaði einn A landsleik og 14 leiki með yngri landsliðum.
Við viljum þakka Andrési fyrir hans frábæra feril hjá félaginu og hans framlag til félagsins og óskum honum góðs gengis í framtíðinni.
FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA
Fylkir og Bílaleiga Akureyrar saman næstu 4 árin.
Það er ánægjulegt að segja frá því að nýlega skrifaði knattspyrnudeild Fylkis undir framlengingu á samstarfssamning við Bilaleigu Akureyrar (Höldur) og er samningurinn til 4 ára.
Bílaleiga Akureyrar hefur verið í samstarfi við deildina í mörg ár og eru forréttindi að fá að vinna með þessu flotta fyrirtæki sem hefur reynst okkur vel.
Við vonumst til að okkar frábæru stuðningsmenn nýti sér þjónustu Bílaleigu Akureyrar.
FYLKIR – ÁRBÆJARINS BESTA
Knattspyrnudeild Fylkis býður nú félögum og velunnurum sínum að kaupa strangheiðarlega og gómsæta sjófrysta ýsu veidda af áhöfninni á Höfrungi III norðaustur af Íslandi.
Salan er liður í fjáröflun deildarinnar til að koma til móts við tekjufall hennar undanfarin misseri.
Á fiskidögunum munum við bjóða ykkur þessa úrvals ýsu í 9kg öskju á 18000 kr. öskjuna sem gerir ekki nema 2000 kr. per kg.
Vinsamlegast meldið ykkur “interested/going” á þennan viðburð, skiljið eftir skilaboð eða pöntun hér fyrir neðan í athugasemdum eða sendið póst á: fylkir@fylkir.is og við verðum í bandi og klárum þetta með ykkur.
Bendum einnig á vefverslunina:
https://fylkir.felog.is/verslun
Frábær ýsa á frábæru verði fyrir frábært félag!
Afhending fer svo fram við Fylkishöll fimmtudaginn 5. nóv. milli 16.00-20.00.
***** Uppskriftasamkeppni *****
Við blásum til uppskriftasamkeppni samhliða fjáröfluninni. Deilið uppáhalds fiskuppskriftinni ykkar hér að neðan og dómnefnd skipuð einvala liði velur tvær bestu sem fá auka öskju af ýsu í verðlaun.
Hér er ein uppskrift frá Hvað er í matinn? til að koma hugmyndafluginu af stað:
Leikur hjá stelpunum í kvöld.
Pepsí Max kvenna
Fylkir – KR kl 19:15
Því miður engir áhorfendur á leiknum en sendum stelpunum góða strauma.
Gangi ykkur vel stelpur.
FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA
Tveimur leikjum Fylkis í Pepsi Max deild kvenna frestað - Knattspyrnusamband Íslands
Næstu leikir í Pepsí Max.
Lau. 03.10.2020 Kl 14:00
Pepsi Max deild kvenna
Samsungvöllurinn
Stjarnan – Fylkir
Sun. 04.10.2020 Kl 19:15
Pepsi Max deild karla
Kópavogsvöllur
Breiðablik – Fylkir
Mætum og styðjum Fylki.
FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA

Bikarúrslit á sunnudag kl 11:30.
3fl.kvenna
WÜRTH VÖLLURINN
Fylkir – ÞÓR/KA

Yfirlýsing frá Stjórn Knattspyrnudeildar Fylkis

Vegna grófra ummæla Rúnars Kristinssonar þjálfara KR í viðtölum á Stöð 2 og fótbolta.net eftir leik KR og Fylkis s.l. sunnudag langar okkur að koma eftirfarandi á framfæri

Okkur var verulega brugðið þegar þjálfari KR viðhafði fordæmalausan óhróður um leikmann Fylkis, Ólaf Inga Skúlason og vændi leikmanninn og liðið allt um að stunda ítrekað svindl og svínarí í gegnum tíðina í viðtölum eftir leik liðanna. Fleiri miður falleg og einstaklega ósvífin orð voru látin falla sem verða ekki tíunduð hér en eru þjóðinni kunn og eru honum og félaginu KR til háborinnar skammar.

Rétt er að taka fram að það er partur af leiknum að vera ósammála um atvik í leikjum eða frammistöðu leikmanna og dómara og hafa á þeim sterkar skoðanir.   Þau ummæli sem hér um ræðir voru hins vegar einstaklega persónulegar ærumeiðingar sem að mati okkar Fylkismanna fóru langt út fyrir þau velsæmismörk sem eðlilegt er að setja bæði til að vernda leikmenn og starfsmenn leikja.    Slík mörk eru ekki síður mikilvæg til að viðhalda virðingu leiksins og sýna ábyrgð út á við af þeim sem eru sterkar fyrirmyndir margra og ekki síst barna og ungmenna.

Við hjá knattspyrnudeild Fylkis höfum haft miklar mætur á Rúnari Kristinssyni sem á einstaklega glæsilegan knattspyrnuferil að baki jafnt með félagsliðum og landsliðum þar sem hann hefur iðulega komið fram af prúðmennsku.    Hefur hann sem þjálfari jafnframt iðulega komið vel fram í fjölmiðlum og verið málefnalegur, agaður og hófstilltur.   Af þessum ástæðum svíður það enn meir að hann skuli viðhafa þessi bersýnilegu röngu og meiðandi ummæli um leikmann okkar og lið enda er hlustað á hann og tekið mark á honum.

Eftir stendur hins vegar að flestir þeir hlutlausu sérfræðingar sem hafa tjáð sig um umrætt atvik eru sammála um að ákvörðun dómara hafi verið rétt.  Jafnframt hefur enginn tekið undir ummæli þjálfarans um óheiðarleika og svindl af hálfu umrædds leikmanns né hafa verið sett fram dæmi sem styðja þessi ummæli.   Það eru hins vegar til nýleg dæmi þar sem að Rúnar hrósaði leikmanni sínum eftir að leikmaðurinn viðurkenndi að hafa „fiskað“ annan leikmann af velli með leikaraskap.   Framangreind ummæli Rúnars dæma sig því sjálf.   Hið rétta er eins og allir vita sem til þekkja að Ólafur Ingi Skúlason er frábær leikmaður og persónuleiki bæði innan og utan vallar sem á glæsilegan feril að baki bæði með félagsliðum og íslenskum landsliðum.  Hann getur verið fastur fyrir á vellinum en hann er langt frá því að vera óheiðarlegur leikmaður eða svindlari.

Forráðamenn Fylkis hafa ávallt lagt sig fram við að eiga gott samstarf við KR og hefur það oftast gengið eftir.  Stuðningsmenn þeirra eru einstakir og okkur hlakkar alltaf til komu þeirra í Árbæinn.   Það er hins vegar miður að KR hefur ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar eða með öðrum hætti að bera klæði á vopnin.   Með þessu er þetta stórveldi í íslenskri knattspyrnu að setja ný háttsemis- og samskiptaviðmið.

Við Fylkismenn höfum hins vegar ákveðið að setja þetta mál aftur fyrir okkur með þessari yfirlýsingu og munum þess í stað einbeita okkur að leiknum sjálfum og þeim fjölmörgu verkefnum sem þessir fordæmalausu tímar hafa lagt á íþróttahreyfinguna.  Þannig stuðlum við best að öflugu starfi knattspyrnudeildar Fylkis bæði í meistaraflokkum karla og kvenna og í yngri flokkum þar sem við munum áfram leggja áherslu á háttvísi innan og utan vallar.

Í framangreindu ljósi hefur stjórn Knattspyrnudeildar Fylkis ákveðið að senda ekki inn kæru til Aga- og úrskurðarnefdar KSÍ vegna þessara ummæla þjálfarans en láta þess í stað KSÍ það eftir að taka þetta mál til skoðunar með það fyrir augum að standa vörð um háttvísi íslenskrar knattspyrnu og setja umræðunni takmörk.

 

Máli þessu er hér með lokið af okkar hálfu.

 

Fyrir hönd Knattspyrnudeildar Fylkis

Kjartan Daníelsson

Næsti leikur hjá strákunum.
WURTH völlurinn
Fylkir – Víkingur
Fimmtudagur kl 19:15
Nú fer öll miðasala fram í gegnum STUBB, miðasala er hafin.
HÓLF 1 STUÐNINGSMENN FYLKIS, eingöngu árskort. Muna að mæta með kortið.
HÓLF 2 STUÐNINGSMENN FYLKIS MIÐJA, sala í gegnum STUBB
HÓLF 3 STUÐNINGSMENN VÍKINGS NORÐURENDI, sala í gegnum STUBB
FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA

Skemmtilegt haust framundan:

MEBA-bikarmót Fylkis 2020

Fylkir mun standa fyrir mótum fyrir yngri flokka á næstu vikum.
Þjálfarar flokka hjá Fylki munu koma með nánari upplýsingar til iðkenda þegar nær dregur 🙂