Það má því með sanni segja að fimleikadeildin lifi nú nýtt vor í starfsemi sinni. Í fjölda ára hafa þrengsli og aðstöðuleysi hamlað vexti deildarinnar og takmarkað möguleika þjálfara og iðkenda. Eftir flutningana í nýtt húsnæði hefur deildin sprungið út, hugsjónir og hugmyndir sem árum saman þurfti að slá á frest hafa fengið að blómstra og iðkendum hefur nú þegar fjölgað um þriðjung. Fimleikadeildin státar einnig af nokkrum af reyndustu þjálfurum landins, nokkrir þeirra hafa full dómararéttindi og einn er alþjóðlegur dómari. Lögð er áhersla á menntun og reynslu þjálfara og að þeir séu ekki undir 18 ára aldri. Haustið 2010 eru allir þjálfararnir utan einn 19 ára og eldri.

Íþróttir barna og unglinga
1. Andi stefnunnar
Sú stefna sem hér er mælt með hefur það að leiðarljósi að íþróttaiðkun skuli vera þroskandi bæði líkamlega, sálrænt og félagslega. Með því móti má skapa aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga til að njóta sín innan íþróttahreyfingarinnar.
Með skipulegri og markvissri þjálfun eins og hér er lýst má skapa börnum og unglingum aðstæður til að verða afreksmenn seinna meir á lands- eða alþjóða mælikvarða þegar þeir hafa mesta líkamlega og sálræna hæfileika til þess. Að sama skapi er gert ráð fyrir að þeir sem ekki velja afreksmennsku eða keppnisíþróttir fái tækifæri til að stunda íþróttir eða líkamsrækt við sitt hæfi.
Varðandi þau aldursmörk sem gengið er út frá verður að gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi og sveigjanleika vegna mismunandi reglna sem gilda í hinum ýmsu íþróttagreinum og mismunar á þroskaferli milli kynja og einstaklinga.
Með neðangreindum aðferðum má tryggja mun meiri fjöldaþátttöku í íþróttum en áður hefur þekkst og skapa um leið aðstæður fyrir fleiri afreksmenn og meiri afrek en áður hefur þekkst.

Kennsluskrá fimleikadeildar