Stefna 

Rafíþróttadeildin stefnir að því að bjóða upp á vel skipulagðar og gefandi æfingar fyrir börn og unglinga með það að markmiði að fá inn nægan fjölda iðkenda til að tryggja að við getum viðhaldið því góða starfi. Að unnið verði eftir æfingakerfum sem yfirþjálfari gefur út. Að þjálfarar séu með greinagóða þekkingu á leiknum sem er verið að kenna og fái góða leiðsögn frá yfirþjálfara um hvernig skuli miðla þekkingu til iðkenda. 

Deildin skal huga þarf vel að þeim sem gætu verið í áhættuhóp og byggja upp sterka félagslega tenginu innan deildarinnar. Það verður lögð áhersla á að kenna iðkendum að þekkja tölvurnar sem verkfæri en ekki verkstjóra, að efla félagsfærni þeirra og reyna að fyrirbyggja félagslega einangrun þeirra sem spila bara ein heima hjá sér. 

Þá mun deildin einnig þjónusta afrekshópa vel og stefnir að því að keppa á efsta stigi innanlands. 

Markmið 

 • Að bjóða upp á skipulagt starf fyrir börn og unglinga þar sem þau geta stundað rafíþróttir undir handleiðslu þjálfara.
 • Að stuðla að jákvæðri tölvuupplifun. 
 • Að hjálpa iðkendum að hugsa vel um líkama og sál. 
 • Að efla félagslegan og siðferðilegan þroska. 
 • Að iðkendur læri undirstöðuatriði í þeim leik sem það æfir. 
 • Að iðkendur hafi ánægju af rafíþróttum. 
 • Að búa til atvinnufólk í faginu sem leyfa ekki tölvum að stjórna lífinu sínu. 
 • Að efla félagsfærni og valdefla þau sem eru mikið ein heima að spila. 
 • Að búa til félagsmenn. 
 • Að vera með öflugt meistaraflokkastarf.

Leiðir að markmiðum 

Þjálfun verður þrepaskipt og námsáætlun fylgt. Eftir að góðum undirstöðum hefur verið náð verður farið að vinna í flóknari færnisþáttum. Deildinni verður aldursskipt og þeim sem skara fram úr boðið að taka þátt í afrekshóp. 

Einblínt verður á einstaklingsmiðaðar tækniæfingar í yngstu flokkum og mismunandi hlutverk prófuð í viðkomandi leik til að byggja sterkan grunn. Stuðlað verður að góðum liðsanda og iðkendum kennt að leysa úr ágreiningsmálum. Rafíþróttalið eru fámenn og reiða sig á góða liðsheild til að vinna að markmiðum. Iðkendur munu læra að byggja upp liðsfélaga fyrir betri árangur. 

Leikstöðum verður víxlað reglulega meðal yngstu iðkendanna. Allir prófa stöðu fyrirliða og allir spila allar stöður. Áhersla lögð á leikfræði og samvinnu liðs í eldri flokkum. Einblínum á leikaðferðir og leikkerfi svo allir iðkendur læri að þróa leikkerfi. Mikil áhersla verður lögð á að þjálfarar kenni iðkendum að greina og leysa úr vandamálum sjálf með samvinnu og markmiðasetningu. 

Í hnotskurn 

 1. Skýr hugmyndafræði. 2. Hæfir þjálfarar. 3. Námsáætlun í þjálfun. 4. Þrepaskipting. 5. Getuskipting. 6. Skemmtun. 7. Þjálfun hugrænnar færni iðkenda.