Orri Sveinn Segatta hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Fylki. Er það mikið fagnaðarefni að Orri hafi valið að vera áfram í appelsínugulu enda verið gríðarlega mikilvægur leikmaður undanfarin ár og var valinn besti leikmaður Fylkis árið 2023.

Orri á alls að baki 255 leiki og 27 mörk fyrir Fylki, þar af 120 leiki og 15 mörk í efstu deild.

Orri lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Fylkis árið 2014. En meistaraflokksferil hans hófst svo fyrir alvöru þegar hann lék á láni fyrir Huginn á Austurlandi en hann lék með þeim árin 2015 og 2016. Hann varð síðan fastamaður í vörn Fylkis árið 2017 og hefur verið það allar götur síðan.

 

Olivier Napiórkowski hefur samið við Fylki til næstu þriggja ára. Olivier er fæddur árið 2009 og því enn í  3.flokki hefur æft með meistaraflokki í upphafi nýs tímabils og var í lok nóvember valinn í æfingahóp hjá U-16 ára landsliði Íslands. Olivier er eldfljótur vængmaður/bakvörður með öflugan vinstri fót.

Óskum við Olivier innilega til hamingju með samninginn

Theodór Ingi Óskarsson einn allra efnilegasti leikmaður félagsins hefur framlengt samning sinn við Fylki út árið 2027.

Theodór fékk eldskírn sína í meistaraflokki á nýliðnu tímabili þar sem hann tók þátt í 22 leikjum og skoraði fjögur mörk. Tvö af þessum mörkum komu í 14 leikjum í Bestu deildinni. Hið fyrra kom í Akraneshöllinni í leik gegn ÍA í apríl og hið seinna kom í lokaleik Fylkis gegn Vestra úr vítaspyrnu.

Theodór spilaði einnig þrjá leiki fyrir U-19 ára landsliði Íslands á árinu.

Þessi bráðefnilegi sóknarmaður sem fagnar 19 ára afmæli sínu í næsta mánuði er sannarlega framtíðarleikmaður sem verður mjög spennandi að fylgjast með

Emil Ásmundsson og Daði Ólafsson hafa framlengt samninga sína við Fylki. Samningur Emils er til eins árs en Daði semur til tveggja ára.

Emil sem verður þrítugur á næsta ári á að baki 167 leiki fyrir Fylki, þar af 81 í efstu deild. Emil hefur einnig leikið með KR og var á mála hjá Brighton í Englandi á árunum 2013-2016. Emil á líklega flottasta mark sem skorað hefur verið á Fylkisvelli þegar hann klippti boltann í samskeytin í leik gegn Grindavík í Lengjudeildinni árið 2022.

Daði sem verður 31 árs á næsta ári hefur því miður átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin tvö ár og kom aðeins við sögu í tveimur leikjum á liðnu tímabili. Daði á að baki 208 leiki fyrir Fylki, þar af 94 í efstu deild og hefur utan stuttrar lánsdvalar hjá ÍR árið 2016 leikið allan sinn feril í appelsínugulu og var meðal annars stoðsendingahæsti leikmaður Pepsi deildarinnar árið 2019.

Eru þetta frábær tíðindi fyrir félagið að tryggja okkur þjónstu þessara leikmanna áfram og verða þeir liðinu afskaplega dýrmætir á komandi leiktíð.

Myndir frá fotbolti.net

Okkar reynslumesti og leikjahæsti leikmaður Ásgeir Eyþórsson hefur framlengt samning sinn við Fylki um eitt ár. Eru þetta gríðarlega jákvæð tíðindi og ljóst að Ásgeir verður liðinu afar dýrmætur í baráttunni í Lengjudeildinni næsta sumar.

Ásgeir á að baki 359 leiki fyrir Fylki, þar af 188 í efstu deild og hefur verið lykilmaður liðsins í mörg ár og oft borið fyrirliðabandið.

Þessi stóri og stæðilegi miðvörður sem stundum er kallaður „Seðlabankastjórinn“ lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í Pepsi deildinni árið 2011 og hefur verið einn okkar tryggasti liðsmaður enda aldrei leikið með öðru félagi en Fylki.

 

 

Olivier Napiórkowski hefur verið valinn á landsliðsæfingar með U16 karla dagana 26.-28.nóvember næstkomandi.

Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ undir stjórn Lúðvíks Gunnarsson, landsliðsþjálfara U16 karla.

Olivier er fæddur árið 2009 og algjör lykilmaður í 3.flokki félagsins. Olivier er eldfljótur vængmaður með öflugan vinstri fót.

 

 

Atli Björn Sverrisson og Magnús Daði Ottesen hafa verið valdir á landsliðsæfingar með U15 karla daganna 26.-28.nóvember næstkomandi. Æfingarnar fara fram í Miðgarði undir handleiðslu nýs landsliðsþjálfara U15, Ómars Inga Guðmundssonar.

Báðir drengir eru fæddir árið 2010 og eru lykilmenn í 3.flokki félagsins.

Atli er kraftmikill varnar og miðjumaður og Magnús er sóknarsinnaður miðjumaður með mikið markanef og hlökkum við til að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Óskum við þeim innilega til hamingju

Júlía Huld Birkisdóttir og Margrét Lind Zinovieva tóku þátt í æfingum U16 kvenna nú í vikunni dagana 11. og 12. nóvember undir stjórn Þórðar Þórðarsonar landsliðsþjálfari U16 kvenna

Báðar stúlkur eru fæddar árið 2009 og eru lykilmenn í 3.flokki félagsins.

Júlía er öflugur markvörður og Margrét er grjótharður varnarsinnaður miðjumaður en báðar hafa verið valdar í landslið áður á árinu.

Óskum við þeim innilega til hamingju

Knattspyrnudeild Fylkis hefur ráðið Kristófer Sigurgeirsson sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla við hlið Árna Freys Guðnasonar þjálfara Fylkisliðsins. Auk þess að taka að sér starf aðstoðarþjálfara meistaraflokks mun Kristófer annast fleiri verkefni fyrir Knattspyrnudeild Fylkis, m.a. á sviði afreksþjálfunar. Kristófer lék á sínum tíma 211 leiki í tveimur efstu deildum knattspyrnunnar þar sem hann skoraði 27 mörk. Flesta þessa leiki spilaði Kristófer undir merkjum uppeldisfélagsins Breiðabliks en auk þess lék hann með Fram og Fjölni. Kristófer sem er með KSÍ A próf, hefur víðtæka reynslu á sviði þjálfunar meistaraflokka, meðal annars hjá Breiðabliki en einnig sem þjálfari karlaliðs Leiknis R. í næst efstu deild. Á síðsta tímabili var Kristófer aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði Víkings R. í Bestu deild.

Ragnar Páll Bjarnason, formaður Knattspyrnudeildar Fylkis: „Við erum mjög spennt fyrir ráðningu Kristófers, bæði fyrir því sem snýr beint að þjálfun meistaraflokks, ásamt Árna Frey, en einnig fyrir öðrum verkefnum eins og afreksstarfinu sem við höldum áfram að þróa hjá okkur. Við hjá Fylki munum áfram leggja áherslu á sterka umgjörð og framúrskarandi þjálfun og hlökkum til baráttunnar fram undan undir stjórn okkar nýja teymis“.

Kristófer Sigurgeirsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari Fylkis: „Aðstaðan hjá Fylki er til fyrirmyndar og það er mikill efniviður til staðar í Árbænum. Það er líka mikill stuðningur við liðið frá Árbæingum sem gerir það alltaf skemmtilegra að mæta á völlinn. Á þessum öfluga grunni Fylkismanna og markvissri stefnu munum við byggja og koma okkur fljótt aftur í röð þeirra bestu. Þá hlakka ég mikið til þess að starfa með Árna Frey og teyminu í kringum liðið og öllu því drífandi fólki sem kemur að knattspyrnunni hér dags daglega. Það eru krefjandi verkefni í vændum fyrir Árbæinga á komandi tímabilum og gott að sjá að stefnan er sett hátt hér.“

Frá vinstri: Björn Viðar Ásbjörnsson formaður meistaraflokksráðs, Kristófer Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari, Árni Freyr Guðnason þjálfari, Arnór Gauti Brynjólfsson, styrktarþjálfari, Ragnar Páll Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar

Frá vinstri: Kristófer Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari, Árni Freyr Guðnason þjálfari, Arnór Gauti Brynjólfsson, styrktarþjálfari

Kristófer Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari

Guðmar Gauti Sævarsson leikmaður Fylkis hefur verið við æfingar hjá unglingaliðum Lyngby (U17 og U19) í þessari viku.

Guðmar átti stórleik með U-17 ára liði Lyngby á þriðjudag 1-1 gegn Nordsjælland en Guðmar Gauti átti stoðsendingu í marki Lyngby.

Guðmar sem hefur farið á kostum með U-17 ára landsliði Íslands að undanförnu og skoraði meðal annars bæði gegn Norður Makedóníu og Eistlandi í undankeppni EM 2025 er spennandi leikmaður sem gaman verður að fylgjast með áfram.