Knattspyrnudeild Fylkis tilkynnir með ánægju að Arnar Grétarsson hefur samþykkt að taka við sem nýr aðalþjálfari karlaliðs Fylkis út keppnis tímabilið 2025.

Fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaðurinn, Arnar Grétarsson, mun taka við liðinu strax og verður hans fyrsta verkefni á föstudaginn, þegar Njarðvík kemur í heimsókn á Tekk völlinn. Arnar á að baki farsælan feril sem leikmaður með liðum á borð við Glasgow Rangers, AEK  Aþenu og Lokeren, auk þess að hafa leikið 72 landsleiki fyrir Ísland.

Síðar starfaði hann sem tæknilegur ráðgjafi hjá AEK Aþenu og sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge, auk þess að þjálfa Breiðablik, Roeselare, KA og nú síðast hjá Val.

Mér finnst vera mikið upside í því að koma hingað til Fylkis. Hér er fullt af flottum leikmönnum, skemmtilegur völlur og ég hef verið að fylgjast með liðinu. Ég hef oft horft hýrum augum til Árbæjarins, bæði vegna aðstæðna, vallarins og Lautarinnar. Þegar þetta tækifæri kom upp var ákvörðunin því frekar einföld að mínu mati.

Sagði Arnar Grétarsson við undirskrift í dag

Stjórn Fylkis lýsir yfir ánægju með ráðninguna.

Við teljum Arnar rétta manninn til að leiða þetta unga og metnaðarfulla lið áfram og treystum honum til að byggja upp af krafti, bæði til skemmri og lengri tíma

Við bjóðum Arnari hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að fylgjast með þróun liðsins á næstu mánuðum undir hans stjórn.

Hér fyrir neðan má finna einlægt viðtal við Arnar Grétarsson, tekið við undirritun samnings í kvöld.

Knattspyrnudeild Fylkis og Árni Freyr Guðnason hafa komist að samkomulagi um að Árni
Freyr láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla frá og með deginum í dag, 14. júlí.
Stjórn knattspyrnudeildar Fylkis þakkar Árna Frey fyrir hans framlag til félagsins og óskar
honum góðs gengis í framtíðinni.
Knattspyrnudeild Fylkis hefur hafið leit að nýjum þjálfara meistaraflokks karla.

fh. stjórnar knattspyrnudeildar Fylkis,
Ragnar Páll Bjarnason, formaður

Knattspyrnudeild Fylkis hefur samið við Mána Austmann Hilmarsson og kemur hann til félagsins frá Fjölni.

Máni, sem er fæddur 1998, kemur með mikla reynslu í framlínu Fylkis. Hann var m.a. markahæsti leikmaður Fjölnis í Lengjudeildinni á síðasta tímabili með 14 mörk í deild og bikar. Máni hóf meistaraflokksferil sinn hjá Stjörnunni og fór þaðan til unglingaliðs FCK í Kaupmannahöfn en hann hefur m.a. leikið með FH, Leikni, HK og ÍR. Samtals á Máni 193 leiki í meistaraflokki hér á landi og hefur skorað í þeim 41 mark.

Björn Viðar Ásbjörnsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis:

„Máni er öflug viðbót við leikmannahóp Fylkis og við reiknum með honum í hóp 18. júlí á móti Njarðvík, eftir að leikmannaglugginn opnar. Máni er öflugur sóknarmaður sem hefur fyrir löngu sannað sig í þessari deild og það styrkir hópinn að fá hann með okkur í baráttuna um að tryggja okkur aftur upp í efstu deild.“

,,Ég hlakka mikið til að komast aftur á fullt í deildinni. Fylkir er með mjög sterkan leikmannahóp og skemmtilega blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við þrautreynda eldri leikmenn og spennandi þjálfarateymi. Það er sett krafa á liðið að gera alvöru atlögu að því að fara beint upp aftur eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni í fyrra og ég held að ég eigi eftir að geta lagt mitt af mörkum í þeirri baráttu.“ var haft eftir Mána við undirskrift

Við bjóðum Mána Austmann hjartanlega velkominn í Árbæinn og hlökkum við til að sjá hann skína í appelsínugulu í sumar!

Fyrir leik Fylkis og Selfoss í Lengjudeildinni síðastliðinn föstudag var veittur styrkur úr minningarsjóði Egils Hrafns. Báðir 2. flokkar félaganna, Fylkis og Selfoss, fengu hvor um sig 250.000 króna styrk til eflingar á starfi sínu.

Egill Hrafn Gústafsson lést langt fyrir aldur fram þann 25. maí 2023. Egill elskaði fótbolta og spilaði með Fylki upp alla yngri flokkana. Egill Hrafn var líka mikill Selfyssingur, enda dvaldi hann stóran hluta uppvaxtaráranna á Selfossi hjá ömmu, afa og frændfólki sínu þar.

Í kjölfar andláts hans var stofnaður minningarsjóður til að heiðra minningu hans. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við verkefni sem hvetja ungmenni á aldrinum 16–20 ára til áframhaldandi þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og þar er leikgleði, ást á fótboltanum og skemmtun höfð að leiðarljósi. Egill var litríkur og skemmtilegur einstaklingur sem fór mikið fyrir. Hann sagði hlutina eins og þeir voru, hispurslaust og án fílters. Þau sem þekktu hann eiga ótal fallegar minningar um Egil og margar góðar Egilssögur sem halda áfram að verða til.

Þetta fallega framtak heldur minningu Egils Hrafns á lofti og styður við það sem Egill sjálfur brann fyrir. Knattspyrnudeildir Fylkis og Selfoss senda fjölskyldu hans innilegar þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag í ungmennastarfið.

Knattspyrnudeild Fylkis (Fylkir) hefur selt Stefán Gísla Stefánsson til Knattspyrnudeildar Vals.

Fylkir metur Stefán Gísla afar mikils og telur hann vera í hópi efnilegustu leikmanna Fylkis á þessum tímapunkti. Fylkir hefur staðið í samningaviðræðum vegna Stefáns Gísla undanfarna sex mánuði sem því miður skiluðu ekki þeirri niðurstöðu sem Fylkir hefur stefnt að, sem var nýr langtímasamningur við leikmanninn.

Fylkir er með skýra stefnu sem snýr að því að bjóða ungum, uppöldum leikmönnum sem ætlað er stórt hlutverk hjá Fylki langtíma samning áður en síðasta ár samnings rennur upp. Eðli máls samkvæmt geta leikmenn farið frá félaginu án endurgjalds í lok tímabils og jafnvel samið við önnur lið þegar sex mánuðir eru eftir af gildandi samning.

Mat Fylkis er, að í þessu tilfelli, sé hagsmunum félagsins best borgið með sölu á leikmanninum þar sem ljóst var að aðilar myndu ekki ná saman um nýjan samning.

Fylkir óskar Stefáni Gísla velfarnaðar í framtíðinni, jafnt utan sem innan vallar.

 

Spilað verður á Tekk vellinum í Árbænum næstu árin

Knattspyrnudeild Fylkis og Tekk húsgagnaverslun kynna með stolti útvíkkað samstarf sem meðal annars felur í sér að aðalvöllur Fylkis mun verða nefndur Tekk völlurinn næstu árin.

Tekk, sem hefur á undanförnum árum verið einn af aðalstyrktaraðilum Knattspyrnudeildar Fylkis, tekur nú að sér enn stærra hlutverk gagnvart Fylki en verið hefur.

Tekk var stofnað árið 1998 af bræðrunum Eyþóri og Finni Kolbeinssonum og eiginkonum þeirra, Elínu Maríu Sigurjónsdóttur og Telmu Birgisdóttur – fyrst undir nafninu Tekk Vöruhús. Núverandi eigendur Tekk eru hjónin Telma Birgisdóttir og Finnur Kolbeinsson. Finnur er uppalinn Árbæingur og lék á sínum tíma hátt í 300 leiki fyrir meistaraflokk Fylkis og var sigursæll fyrirliði Fylkis um margra ára skeið.

Ragnar Páll Bjarnason, formaður Knattspyrnudeildar Fylkis: „Við höfum átt frábært samstarf við Harald Leifsson og félaga hjá Würth á undanförnum árum sem við þökkum kærlega fyrir. Á sama tíma er það gríðarlega ánægjulegt að kynna enn víðtækara samstarf við Telmu og Finn hjá Tekk. Við erum sérlega stolt af því að þétta samstarfið við Árbæinga og Fylkisfólk eins og þau. Við leyfum okkur að taka þessu sem staðfestingu á því góða starfi sem fram fer á vegum Knattspyrnudeildar Fylkis.“

Telma Birgisdóttir, eigandi Tekk: „Hjartað í Árbæ, Selás, Ártúnsholti og Norðlingaholti slær með Fylki og það er ekki annað hægt en að hrífast með. Við bjóðum allt Fylkisfólk sérlega velkomið í verslun okkar í Skógarlindinni þar sem við heitum góðum móttökum.“

Finnur Kolbeinsson, eigandi Tekk: „Við hjá Tekk höfum í langan tíma stutt með mikilli gleði við starfsemi Knattspyrnudeildar Fylkis. Ég er alinn upp í Fylki og hér er okkur að gefast tækifæri til að styðja við öflugt og ábyrgt starf Fylkis fyrir hverfið ásamt því að vekja athygli allra landsmanna á Tekk og þeim fjölbreyttu vörum sem við hjá Tekk höfum upp á að bjóða.“

Myndir: Hulda Margrét. http://huldamargret.is

Páskanámskeið í dymbilviku fyrir iðkendur í 4-7. flokki

– Leynigestir úr meistaraflokkum Fylkis

– Páskaglaðningur í lok námskeiðs

– Iðkendur mæta með nesti

Yfirþjálfarar: Steinar Leó Gunnarsson og Kristján Gylfi Guðmundsson

 

Olivier Napiórkowski og Jón Ólafur Kjartansson hafa verið valdir á úrtaksæfingar með U16 ára landsliði drengja daganna 31.mars – 2.apríl næstkomandi.
Æfingarnar fara fram á Avis velli í Laugardal.

Olivier er fæddur 2009 og er eldfljótur vængmaður/bakvörður og miðjumaður með öflugan vinstri fót. Olivier hefur tekið þátt í leikjum meistaraflokks í vetur.

Jón Ólafur er fæddur árið 2009 og er mjög efnilegur markvörður sem leikur með 3. og 2. flokki félagsins.

Olivier Napiórkowski

Jón Ólafur Kjartansson

 

Arnór Steinsen Arnarsson, Karen Dís Vigfúsdóttir, Kári Gunnarsson og Kristín Birna Steinarsdóttir hafa verið valin í hæfileikamótun KSÍ og N1. Æfingarnar hjá stelpunum fara fram 26.-28.mars og æfingar hjá strákunum eru 31. mars – 2. apríl og eru æfingarnar inni í Miðgarði í Garðabæ. Öll ungmennin eru fædd árið 2011 og hafa leikið með 3. og 4.flokki í vetur. Arnór og Karen Dís eru sóknarmenn og miklir markaskorarar en Kári og Kristín Birna eru bæði efnilegir markverðir. Við óskum þeim innilega til hamingju.

Karen Dís Vigfúsdóttir, Kristín Birna Steinarsdóttir, Kári Gunnarsson og Arnór Steinsen Arnarsson

Karen Dís Vigfúsdóttir og Kristín Birna Steinarsdóttir

Kári Gunnarsson og Arnór Steinsen Arnarsson

Kári Gunnarsson

Arnór Steinsen Arnarsson

Kristín Birna Steinarsdóttir

Karen Dís Vigfúsdóttir

Ársreikningur knattspyrnudeildar Fylkis vegna ársins 2024 er jákvæður upp á sjö og hálfa milljón fyrir fjármagnsliði.

Tekjur deildarinnar voru 323 milljónir og hækkuðu um rúmar 43 milljónir króna á milli ára.

Hægt er að skoða ársreikninginn með því að fara inn á neðangreindaslóð á heimasíðu félagsins

 

https://fylkir.is/wp-content/uploads/2025/02/Arsreikn-knd-2024.pdf