Rebekka Rut Harðardóttir og Birna Kristín Eiríksdóttir hafa framlengt samninga sína við Fylki til tveggja ára.

Rebekka Rut er uppalin í Árbænum og hefur spilað í gegnum alla yngri flokka félagsins. Rebekka sem verður tvítug á næsta ári er efnilegur markmaður sem á að baki 11 leiki fyrir meistaraflokk Fylkis. Hún mun nú fá stærra hlutverk eftir brotthvarf Tinnu Brár Magnúsdóttur og verður mjög spennandi að fylgjast með henni næsta sumar.

Birna Kristín sem einnig er uppalinn leikmaður verður 25 ára á næsta ári. Hún hefur spilað 57 leiki og skorað 6 mörk fyrir Fylki í öllum keppnum, en fyrsti leikur Birnu fyrir félagið var í Pepsi deildinni árið 2016. Þá hefur hún einnig leikið með Haukum og Fram þar sem hún lék á láni á síðustu leiktíð.  Er mjög ánægjulegt að sjá að Birna haldi tryggð við Fylki þrátt fyrir áhuga marga annarra liða.

Rebekka Rut Harðardóttir

 

Birna Kristín Eiríksdóttir

Olivier Napiórkowski hefur verið valinn til þátttöku í úrtaksæfingum U-16 ára landsliðs karla

Æfingarnar fram dagana 13. – 15.janúar 2025 í Miðgarði í Garðabæ undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar landsliðsþjálfara U-16 karla.

Olivier er fæddur 2009 og er eldfljótur vængmaður/bakvörður með öflugan vinstri fót. Olivier hefur tekið þátt í æfingaleikjum meistaraflokks í lok árs.

 

 

Guðmar Gauti Sævarsson og Stefán Logi Sigurjónsson leikmenn Fylkis hafa verið valdir til þátttöku í úrtaksæfingum U-17 ára landsliðs karla. Báðir drengir eru fæddir 2008 og spilar Guðmar oftast sem miðjumaður en Stefán sem varnarmaður.

Æfingarnar fara fram dagana 7. – 9.janúar 2025 í Miðgarði í Garðabæ undir stjórn Lúðvíks Gunnarsson, landsliðsþjálfara U17 karla.

Guðmar Gauti stimplaði sig inn í meistaraflokk félagsins í ár og kom við sögu í 13 leikjum Fylkis á síðustu leiktíð. Hann hefur spilað 13 landsleiki og skorað 3 mörk fyrir yngri landslið Íslands (U-15, U-16 og U-17)

Stefán Logi hefur tekið þátt í æfingaleikjum meistaraflokks nú í lok árs. Þá var hann ónotaður varamaður í Mjólkurbikarleik gegn KR sumarið 2023. Hann á 3 landsleiki að baki fyrir U-15 ára landslið Íslands.

Bókin Íslensk knattspyrna 2024 er komin út. Þetta er 44. árið sem bókin er gefin út en hún hefur komið út samfleytt frá árinu 1981. Sögur Útgáfa gefa út bókina sem er stærri en nokkru sinni fyrr, 304 blaðsíður í stóru broti og skreytt með um 450 myndum af leikmönnum og liðum.

Í bókinni er sagt ítarlega frá Íslandsmótunum 2024 í öllum deildum karla og kvenna, sem og yngri flokkunum, bikarkeppninni, Evrópuleikjunum og vetrarmótunum. Þá er landsleikjum ársins í öllum aldursflokkum gerð góð skil og fjallað sérstaklega um íslenska knattspyrnufólkið sem leikur erlendis.

Í bókinni er ítarleg tölfræði um leikmenn og lið, sjá má liðsskipan allra liða í öllum deildum í meistaraflokkum karla og kvenna, leikjafjölda leikmanna í efri deildum, leikjahæstu karla og konur, marka- og leikjahæstu karla og konur í deildakeppni hér og erlendis ásamt mörgu fleiru.

Viðtöl í bókinni eru við Ástu Eir Árnadóttur og Andra Rafn Yeoman, Íslandsmeistara kvenna og karla með Breiðabliki, en einnig við Hallgrím Mar Steingrímsson, leikmann bikarmeistara KA og Sævar Pétursson framkvæmdastjóra KA.

Í ár er bókin gefin út með tveimur kápum. Á kápu hefðbundnu útgáfunnar eru myndir af Íslands- og bikarmeisturum Breiðabliks í karla- og kvennaflokki og sú útgáfa er í almennri sölu og dreifingu og fæst í bókaverslunum Eymundsson um allt land. Einnig er hægt að panta hana, ásamt eldri bókum, á heimasíðu Sögur Útgáfa, sogurutgafa.is, eða í síma 557 3100.

Í sérútgáfu er mynd af bikarmeisturum KA í karlaflokki á kápunni og sú bók er eingöngu til sölu hjá KA en upplýsingar eru á heimasíðu félagsins, www.ka.is.

Orri Sveinn Segatta hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Fylki. Er það mikið fagnaðarefni að Orri hafi valið að vera áfram í appelsínugulu enda verið gríðarlega mikilvægur leikmaður undanfarin ár og var valinn besti leikmaður Fylkis árið 2023.

Orri á alls að baki 255 leiki og 27 mörk fyrir Fylki, þar af 120 leiki og 15 mörk í efstu deild.

Orri lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Fylkis árið 2014. En meistaraflokksferil hans hófst svo fyrir alvöru þegar hann lék á láni fyrir Huginn á Austurlandi en hann lék með þeim árin 2015 og 2016. Hann varð síðan fastamaður í vörn Fylkis árið 2017 og hefur verið það allar götur síðan.

 

Olivier Napiórkowski hefur samið við Fylki til næstu þriggja ára. Olivier er fæddur árið 2009 og því enn í  3.flokki hefur æft með meistaraflokki í upphafi nýs tímabils og var í lok nóvember valinn í æfingahóp hjá U-16 ára landsliði Íslands. Olivier er eldfljótur vængmaður/bakvörður með öflugan vinstri fót.

Óskum við Olivier innilega til hamingju með samninginn

Theodór Ingi Óskarsson einn allra efnilegasti leikmaður félagsins hefur framlengt samning sinn við Fylki út árið 2027.

Theodór fékk eldskírn sína í meistaraflokki á nýliðnu tímabili þar sem hann tók þátt í 22 leikjum og skoraði fjögur mörk. Tvö af þessum mörkum komu í 14 leikjum í Bestu deildinni. Hið fyrra kom í Akraneshöllinni í leik gegn ÍA í apríl og hið seinna kom í lokaleik Fylkis gegn Vestra úr vítaspyrnu.

Theodór spilaði einnig þrjá leiki fyrir U-19 ára landsliði Íslands á árinu.

Þessi bráðefnilegi sóknarmaður sem fagnar 19 ára afmæli sínu í næsta mánuði er sannarlega framtíðarleikmaður sem verður mjög spennandi að fylgjast með

Emil Ásmundsson og Daði Ólafsson hafa framlengt samninga sína við Fylki. Samningur Emils er til eins árs en Daði semur til tveggja ára.

Emil sem verður þrítugur á næsta ári á að baki 167 leiki fyrir Fylki, þar af 81 í efstu deild. Emil hefur einnig leikið með KR og var á mála hjá Brighton í Englandi á árunum 2013-2016. Emil á líklega flottasta mark sem skorað hefur verið á Fylkisvelli þegar hann klippti boltann í samskeytin í leik gegn Grindavík í Lengjudeildinni árið 2022.

Daði sem verður 31 árs á næsta ári hefur því miður átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin tvö ár og kom aðeins við sögu í tveimur leikjum á liðnu tímabili. Daði á að baki 208 leiki fyrir Fylki, þar af 94 í efstu deild og hefur utan stuttrar lánsdvalar hjá ÍR árið 2016 leikið allan sinn feril í appelsínugulu og var meðal annars stoðsendingahæsti leikmaður Pepsi deildarinnar árið 2019.

Eru þetta frábær tíðindi fyrir félagið að tryggja okkur þjónstu þessara leikmanna áfram og verða þeir liðinu afskaplega dýrmætir á komandi leiktíð.

Myndir frá fotbolti.net

Okkar reynslumesti og leikjahæsti leikmaður Ásgeir Eyþórsson hefur framlengt samning sinn við Fylki um eitt ár. Eru þetta gríðarlega jákvæð tíðindi og ljóst að Ásgeir verður liðinu afar dýrmætur í baráttunni í Lengjudeildinni næsta sumar.

Ásgeir á að baki 359 leiki fyrir Fylki, þar af 188 í efstu deild og hefur verið lykilmaður liðsins í mörg ár og oft borið fyrirliðabandið.

Þessi stóri og stæðilegi miðvörður sem stundum er kallaður „Seðlabankastjórinn“ lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í Pepsi deildinni árið 2011 og hefur verið einn okkar tryggasti liðsmaður enda aldrei leikið með öðru félagi en Fylki.

 

 

Olivier Napiórkowski hefur verið valinn á landsliðsæfingar með U16 karla dagana 26.-28.nóvember næstkomandi.

Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ undir stjórn Lúðvíks Gunnarsson, landsliðsþjálfara U16 karla.

Olivier er fæddur árið 2009 og algjör lykilmaður í 3.flokki félagsins. Olivier er eldfljótur vængmaður með öflugan vinstri fót.