Andrés Már leggur skóna á hilluna.
Leikjahæsti leikmaður Fylkis í efstu deild, Andrés Már Jóhannesson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Andrés hefur reynst Fylki frábærlega, spilað 191 leik í efstu deild og þjónað sínu félagi vel.
Andrés spilaði einn A landsleik og 14 leiki með yngri landsliðum.
Við viljum þakka Andrési fyrir hans frábæra feril hjá félaginu og hans framlag til félagsins og óskum honum góðs gengis í framtíðinni.
FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA
Fylkir og Bílaleiga Akureyrar saman næstu 4 árin.
Það er ánægjulegt að segja frá því að nýlega skrifaði knattspyrnudeild Fylkis undir framlengingu á samstarfssamning við Bilaleigu Akureyrar (Höldur) og er samningurinn til 4 ára.
Bílaleiga Akureyrar hefur verið í samstarfi við deildina í mörg ár og eru forréttindi að fá að vinna með þessu flotta fyrirtæki sem hefur reynst okkur vel.
Við vonumst til að okkar frábæru stuðningsmenn nýti sér þjónustu Bílaleigu Akureyrar.
FYLKIR – ÁRBÆJARINS BESTA
Áframhaldandi æfinga- og keppnisbann!!
Skilaboð frá ÍSÍ
Nú rétt í þessu lauk blaðamannafundi í Hörpunni þar sem heilbrigðisráðherra tilkynnti um hertar aðgerðir í sóttvörnum frá miðnætti og til 17. nóvember nk. Aðgerðirnar byggja á tilmælum sóttvarnalæknis, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra frá því í dag. Íþróttir, þar með talið æfingar og keppni, barna og fullorðinna, hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar, eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar, án snertingar, eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. Sundlaugar verða jafnframt lokaðar á sama tímabili. Þá kemur fram í reglugerðinni að ráðherra getur þó veitt undanþágu fyrir einstaka íþróttaviðburð svo sem alþjóðlega keppnisleiki.
Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns og niður í 10 manns. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2ja metra reglunni, fjöldatakmörkunum og grímuskyldu.
Í ofangreindar aðgerðir er ráðist í kjölfar aukinna smita í samfélaginu og hópsýkinga sem upp hafa komið á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Heilbrigðiskerfið í landinu er undir gríðarlegu álagi þessa dagana og er Landspítalinn kominn á neyðarstig. Miðast aðgerðir meðal annars við að minnka álagið svo heilbrigðiskerfið geti mætt þeim aðstæðum sem skapast hafa í faraldrinum.
„Undanfarna mánuði hefur íþróttahreyfingin ýmist verið í vörn eða sókn og í dag þurfum við enn og aftur að bíta á jaxlinn og standa af okkur storminn. Það er erfitt að þurfa að hætta við fyrirætlanir um frekari opnun íþróttastarfs og í staðinn horfa fram á lokun alls íþróttastarfs.
Íþróttahreyfingin er ótrúleg hreyfing. Hún hefur staðið sig frábærlega í þessu erfiða umhverfi sem hún hefur búið við síðustu mánuði. Ég hvet alla sem koma að íþróttastarfinu til að sýna áfram þolinmæði og seiglu sem munu reynast okkur vel í baráttunni við veiruna. Við þurfum, þrátt fyrir farsóttarþreytu, að halda áfram að rækta það frumkvæði og hugmyndaflug sem hreyfingin hefur sýnt þegar kemur að því mæta þeim áskorunum sem við blasa hverju sinni.
Við þurfum öll að standa vörð um íþróttastarfið í landinu og vera meðvituð um mikilvægi íþróttaiðkunar, ekki síst á tímum sem þessum. Gott heilsufar er besta forvörnin gagnvart kórónuveirunni sem og mörgum öðrum sjúkdómum.
Hvetjum hvert annað áfram, sýnum tillitsemi, samstöðu og ábyrga hegðun“, sagði Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ við birtingu nýju reglugerðarinnar í dag.
Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar: https://www.stjornarradid.is/…/Rg.%20um
Minnisblað sóttvarnarlæknis má sjá hér: https://www.stjornarradid.is/…/Minnisbla%c3%b0%20a%c3…
Hér má sjá frétt af vef Heilbrigðisráðuneytisins: https://www.stjornarradid.is/…/Hertar…/
Knattspyrnudeild Fylkis býður nú félögum og velunnurum sínum að kaupa strangheiðarlega og gómsæta sjófrysta ýsu veidda af áhöfninni á Höfrungi III norðaustur af Íslandi.
Salan er liður í fjáröflun deildarinnar til að koma til móts við tekjufall hennar undanfarin misseri.
Á fiskidögunum munum við bjóða ykkur þessa úrvals ýsu í 9kg öskju á 18000 kr. öskjuna sem gerir ekki nema 2000 kr. per kg.
Vinsamlegast meldið ykkur “interested/going” á þennan viðburð, skiljið eftir skilaboð eða pöntun hér fyrir neðan í athugasemdum eða sendið póst á: fylkir@fylkir.is og við verðum í bandi og klárum þetta með ykkur.
Bendum einnig á vefverslunina:
https://fylkir.felog.is/verslun
Frábær ýsa á frábæru verði fyrir frábært félag!
Afhending fer svo fram við Fylkishöll fimmtudaginn 5. nóv. milli 16.00-20.00.
***** Uppskriftasamkeppni *****
Við blásum til uppskriftasamkeppni samhliða fjáröfluninni. Deilið uppáhalds fiskuppskriftinni ykkar hér að neðan og dómnefnd skipuð einvala liði velur tvær bestu sem fá auka öskju af ýsu í verðlaun.
Hér er ein uppskrift frá Hvað er í matinn? til að koma hugmyndafluginu af stað:

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við ÍSÍ og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins
hafa tekið þá ákvörðun um að heimila börnum fædd 2005 og síðar að hefja æfingar í þróttamannvirkjum
á vegum sveitarfélaganna og félaganna frá og með 3. nóvember næstkomandi. Ekki liggur fyrir hvort einhverjar
takmarkanir verði þá í gildi en þjálfarar flokkanna/hópana munu koma upplýsingum til sinna iðkenda og foreldra þeirra fyrir 3.nóvember.

Komnar eru í sölu fjölnota 3 laga Fylkisgrímur.  Hægt er að panta og fá frekari upplýsingar hjá Elsu í síma 7759078.

Ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á samkomu hefur verið birt. Tekur hún gildi 20. október og gildir til 10. nóvember n.k.

Samkvæmt reglugerðinni er sem fyrr í gildi bann við æfingum og keppni sem krefjast snertinga á höfuðborgarsvæðinu. Von er á frekari upplýsingum frá hverju sérsambandi fyrir sig um hvort og þá hvernig sé hægt að halda úti æfingum.  Nýjar upplýsingar um það verða sendar út til iðkenda um leið og þær berast en á meðan eru engar æfingar.

 

Vegna þeirrar stöðu sem komin er upp varðandi útbreiðslu Covid-19 og að beiðni sóttvarnaryfirvalda þá verða Fylkishöllin og Fylkisselið lokuð  fyrir almenna umferð til 1.nóvember.    Þess ber þó að geta að starfsemi frístundaheimilis Árbæjarskóla í Fylkishöll verður áfram með aðstöðu í Fylkishöll þessa daga eins og áður.  Fyrirspurnir um starfið er hægt að senda á netfangið fylkir@fylkir.is.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi sínum rétt í þessu að beina því til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þar eru þau beðin um að gera hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum frá deginum í dag til 19. október. Jafnframt eru þau beðin um að fresta keppnisferðum út á land.

  • Hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að vera eins mikið heimavið og kostur er.
  • Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema nauðsyn sé til.
  • Verjum viðkvæma hópa og takmörkum heimsóknir til einstaklinga í áhættuhópum eins og hægt er.
  • Takmörkun fjölda í búðum –einn fari að versla frá heimili ef kostur er.
  • Hvatt er til þess að þeir sem standi fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu fresti þeim
  • Klúbbar, kórar, hlaupahópar, hjólahópar og aðrir hópar sem koma saman geri hlé á starfsemi sinni.
  • Allir staðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningur á erindi herði allar sínar sóttvarnaraðgerðir, takmarki eins og hægt er fjölda, tryggi að allir geti sótthreinsað hendur við innganga, sótthreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjarlægðarmörk
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.
  • Allir sem finni fyrir hinum minnstu einkennum haldi sig heima, fari í sýnatöku og líti á að þeir séu í einangrun þar til neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir.
  • Allir á höfuðborgarsvæðinu og víðar þurfa að koma með okkur í þetta átak og gæta sérstaklega vel að sér næstu vikur.

Jafnframt er bent á að tilmæli um ferðalög til eða frá höfuðborgarsvæðinu ná einnig til iðkenda og annarra þátttakenda í íþróttastarfinu.

Á vef stjórnarráðs Íslands hefur verið birt frétt um COVID-19: Um reglur og tilmæli.

 

Vegna þeirrar óvissu sem komið hefur upp í dag varðandi æfingar þá viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

Beðið er eftir samræmdum reglum og leiðbeiningum frá íþróttaforystunni og er von á þeim fljótlega.  Meðan staðan er þessi þá gætu einstakar æfingar fallið niður og munu þá þjálfarar láta vita af því.

Hvað varðar íþróttastarfsemi félagsins þá gilda eftirfarandi reglur sem heilbrigðisráðherra hefur gefið út.  Reglurnar gilda til 19.október

  • Nálægðarmörk 2 metrar: Nálægðarmörk verða 2 metrar. Það á einnig við í öllum skólum, að undanskildum börnum fæddum 2005 og síðar.
  • Íþróttastarfsemi barna sem eru fædd 2005 og síðar er  Allar æfingar fyrir þennan aldur verða því með óbreyttu sniði.  Beinum því reyndar til foreldra að láta börnin mæta eins mikið tilbúin og hægt er.  Fækkum sameiginlegum snertifletum.  Hér er bæði um að ræða æfinga innan- og utandyra.
  • Hefðbundið íþróttastarf innandyra fyrir iðkendur fædda 2004 og eldri fellur niður og munu þjálfarar vera í sambandi við sína hópa um starfið næstu daga og vikur. Hér er um að ræða æfingar 16 ára og eldri í handbolta, fimleikum, karate, rafíþróttum og blaki.
  • Knattspyrnuæfingar utandyra geta farið fram með hefðbundnum hætti.
  • Hvað varðar keppnisviðburði þá eru allar keppnir bannaðar hjá iðkendum fæddum 2005 og yngri þar sem hætta er á blöndun hópa umfram hefðbundnar æfingar eru óheimilir.
  • Keppni í knattspyrnu utandyra er heimil hjá iðkendum fæddum 2004 og eldri.
  • Nálægðar- og fjöldamörk: Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldamörk ekki um börn fædd 2005 og síðar.
  • Íþróttir utandyra: Íþróttir utandyra eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu og sitja í merktum sætum. Vegna viðburða hjá Fylki þá skal leita upplýsinga um viðkomandi viðburð þar sem einhverjir atburðir verða án áhorfenda.
  • Þess ber þó að geta að einstaka æfingar geta fallið niður næstu daga vegna þessa ástands og munum þjálfarar hópanna þá láta iðkendur vita.

Félagið beinir því til foreldra og stuðningsmanna að fara ekki inn í íþróttamannvirki félagsins nema nauðsyn sé.  Hafið samband í gegnum síma eða tölvupóst (fylkir@fylkir.is) varðandi erindi sem geta ekki beðið.

Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum öll þátt í þessu saman og vöndum okkur.