Fylkir og Fjölnir hafa skrifað undir þriggja ára samstarfssamning um að tefla fram sameiginlegu liði í meistaraflokki kvenna í handbolta. Markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum. Félögin vilja byggja upp samkeppnishæfan meistaraflokk sem mun með tímanum festa sig í sessi í efstu deild.
Gísli Steinar Jónsson og Gunnar Valur Arason taka við þjálfun Fjölnis/Fylkis í meistaraflokki kvenna. Þeir taka við góðu búi af þeim Sigurjóni Friðbirni hjá Fjölni og Ómari Erni hjá Fylki.
Gísli Steinar Jónsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur undanfarin tvö ár þjálfað yngri flokka kvenna hjá Fjölni ásamt því að sinna hlutverki aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna á liðnu tímabili. Fyrir þann tíma bjó hann í Noregi og þjálfaði yngri flokka hjá Fet IL í sex ár. Gísli hlakkar til að takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni sem tengjast samstarfi félaganna og að fylgja áfram öllum þeim efnilegu stelpum sem hann hefur þjálfað síðustu tvö ár og auk þess kynnast nýjum leikmönnum sem eru að bætast í hópinn fyrir næsta tímabil.
Gunnar Valur Arason er uppalinn ÍR-ingur þar sem hann spilaði í yngri flokkunum og loks í meistaraflokki. Hann á einnig að baki leiki í meistaraflokki fyrir lið Víkings, Fylkis og Gróttu. Gunnar byrjaði ungur að þjálfa hjá ÍR og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu í fjölmörg ár. Hann var einnig þjálfari yngri flokka Víkings í rúm tvö ár. Það var svo á tímabilinu 2014-2015 sem hann snéri aftur til ÍR, þá hjá 3. flokki, 4. flokki og sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna. Vorið 2015 tók Gunnar svo tímabundið við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍR og svo aftur sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins árið 2017. Gunnar hefur þjálfað 3. og 4. flokk kvenna hjá ÍR frá 2014-2020. Loks má nefna að Gunnar hefur einnig komið að þjálfun afrekshóps hjá HSÍ.
Nýjir þjálfarar Fjölnis/Fylkis