Eins og flestir ættu að vita settu yfirvöld á samkomubann sem á að taka gildi á mánudaginn næsta 16.mars og gilda til 13.apríl.

Bannið er sett á til að hægja á útbreiðslu Covid-19 og minnka líkurnar á að viðkvæmir einstaklingar veikist.
Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar með taldir íþróttaviðburðir þar sem fleiri en 100 manns koma saman.
Á samkomum þar sem færri en 100 eru samankomnir, skal eins og mögulegt er skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga.
Takmarkanir gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.
Þar skal tryggja að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar í sama rými og að einstaklingar blandist ekki milli hópa fyrir og eftir æfingar.

Forsvarsmenn félagsins hafa verið að skoða um helgina hvernig íþróttastarf barna og unglinga hjá félaginu geti farið fram samkvæmt skilyrðum væntanlegs samkomubanns.
Einnig er félagið að bíða eftir leiðbeinandi tilmælum frá Borgaryfirvöldum og íþróttahreyfingunni.
Meðan þessi staða er uppi þá verður algjört æfingastopp hjá barna- og unglingastarfi félagsins í öllum deildum.  Þess ber að geta að mörg sérsambönd hafa brugðist við með algjöru leikja- og mótabanni meðan á samkomubanninu stendur.
Eins og fyrr segir þá eru forsvarsmenn félagsins og deilda þess að skoða hvort og þá hvernig væri hægt að halda úti einhverju starfi þessar fjórar viku en það eru allir sammála um að við erum ekki að fara af stað nema fyllsta öryggis sé gætt og farið sé eftir því sem búið er að gefa út.  Það er ljóst að það er mjög mismunandi eftir greinum hvernig væri hægt að halda úti æfingum og eru deildir félagsins að skoða þá möguleika sem koma til greina.
Allar nýjar upplýsingar verða settar á heimasíðu og Facebook síðu félagsins ásamt því að þjálfarar munu koma upplýsingum til sinna hópa.

Frístundavagninn mun ekki ganga meðan samkomubannið er í gildi.

Við höfum þá trú að ef við stöndum öll saman og fylgjum þeim tilmælum sem gefin eru út þá mun þetta ganga hratt yfir.

Í ljósi fyrirhugaðs samkomubanns hefur verið tekin ákvörðun um að allar æfingar yngri iðkenda hjá Fylki falli niður í dag föstudag og um helgina.

Þetta á við um allar greinar innan félagsins.

Hvað varðar framhaldið þá verða sendar út frekari upplýsingar um helgina.

Aðalstjórn íþróttafélagsins Fylkis samþykkti í dag tillögu Björns Gíslasonar, formanns, um að vekja sérstaka athygli á leiðbeiningum sóttvarnarlæknis í tengslum við kórónaveiruna COVID-19. Iðkendur, þjálfarar, stjórnir deilda og forráðamenn félagsins eru hvattir til að fylgjast með nýjustu uppfærslum varðandi skilgreiningar á áhættusvæðum. Þeir sem hyggja á ferðalög ættu að kynna sér allar upplýsingar varðandi smitsvæði á vefsíðu Embættis landlæknis. Félagið bendir öllum sem tengjast félaginu á að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis um sóttkví vegna veirunnar hafi aðilar verið á skilgreindum áhættusvæðum. Mælst er til þess að þeir sem hafi verið nýlega á þessum áhættusvæðum fari í fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð. Hafa ber í huga þau áhrif sem aðgerðir stjórnvalda á áhættusvæðum geta haft á ferðaáætlanir og fylgjast vel með fréttum, þarlendis og á vef Embættis landlæknis þar sem skilgreiningar á svæðum með viðvarandi smit geta breyst hratt.

 

Embætti landlæknis uppfærir reglulega upplýsingar á vefsíðu landlæknis hér.

 

Mælst er til þess að iðkendur, þjálfarar og aðrir sem koma að starfi félagsins hugi vel að persónulegu hreinlæti (handþvottur, klútur fyrir vit við hnerra eða hósta). Með auðveldum hætti er hægt að draga úr sýkingarhættu með því að gæta vel að sínu persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og munn eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.

 

Hér á vefsíðu Embættis landlæknis má sjá ráðleggingar til ferðamanna.

 

Íþróttafélagið Fylkir mun fylgjast náið með þróun mála og bregðast við þeim tilmælum sem berast frá yfirvöldum.   

Mikilvægt er að forráðamenn iðkenda fari eftir þeim leiðbeinandi reglum sem gefnar hafa verið út.

Félagið hefur gefið það út til þjálfara að forðast óþarfa snertingar milli iðkenda og starfsmanna.

Einnig að þjálfarar brýni fyrir iðkendum að þvo sér reglulega um hendur.

 

„Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að lágmarka áhrifin af veirunni. Förum að fyrirmælum fagaðila og almannavarna og fylgjumst vel með fréttum. Ég tek undir með Landlækni og segi: Almannavarnir eru við öll,“ segir Björn Gíslason formaður aðalstjórnar Fylkis.

 

Frekar upplýsingar til fjölmiðla veitir Björn Gíslason, formaður aðalstjórnar Fylkis, í síma 862-7277.

BKL_low

 

Fylkir stendur fyrir verkefninu“fjölgun iðkenda hjá Fylki“

Nú gefst öllum krökkum í 3 og 4 bekk í Árbænum að prufa allar íþróttagreinar hjá Fylki, ókeypis í 2 mánuði.

 

Handbolti er á mánudögum í Fylkishöll kl. 16:15-17:15

Fótbolti er á þriðjudögum í Fylkishöll kl. 15:00-16:00

Blak er á miðvikudögum í Árbæjarskóla kl. 17:00-18:00

Karate er á fimmtudögum í Fylkisseli kl. 16:00-17:00

Fimleikar eru á föstudögum í Fylkisseli kl. 14:30-15:30

 

Þjálfarar deildanna munu taka á móti krökkunum og sjá um æfingarnar, sem eru settar upp eingöngu fyrir þetta verkefni.

 

Krökkunum er frjálst að mæta alla daga vikunnar á þessar æfingar, það þarf ekki að skrá krakkana, bara að mæta og njóta.

Miðvikudaginn 15.janúar var dregið í nýárshappadrætti knattspyrnudeildar hjá Sýslumanni.  Meðfylgjandi má sjá hvernig fór og skulu vinningshafar hafa samband við Elsu fjármálastjóra Fylkis varðandi vinningana í síma 775-9078 eða með að senda tölvupóst á elsa@fylkir.is.

 

Herrakvöld Fylkis verður föstudaginn 24. janúar 2020 í Fylkishöll

Skráning á námskeið rafíþróttadeildar Fylkis er í fullum gangi. Námskeiðin hefjast 13. janúar og er hægt að skrá inn á skráningarsíðu Fylkis  https://fylkir.felog.is
 
Uppselt er nú þegar á nokkur námskeið en um að gera að skrá sig á biðlista og ef nægur fjöldi fæst þá verður bætt við námskeiði.
 
Hægt er að nota frístundastyrk vegna ársins 2019 á námskeiðin.
 
Við hvetjum forráðamenn til að skrá börnin á biðlista ef námskeiðið er fullt því við munum eftir fremsta megni bæta við hópum ef biðlistar eru nógu langir til að manna nýjan hóp.
 
Iðkendur þurfa að eiga aðgang að þeim leik sem á að iðka, deildin sér annars fyrir öllum öðrum æfingatækjum. Við hvetjum forráðamenn til þess að vera meðvitaðir um aldursviðmið PEGI. Skráning á æfingar er á ábyrgð forráðamanna og við skráningu er forráðamaður að senda samþykki sitt við því að iðkandinn spili þann leik sem það hefur verið skráð á æfingar fyrir.
 
Hámark eru 10 á hvert námskeið.
 
Námskeiðin eru:
Finndu þína rafíþrótt – bæði kyn saman, skipt upp í 10-12 ára 15:00-16:30 og 13-16 ára 16:30-18:00 (mán og mið)
CS:GO – kynjaskipt, kvk 18:00-19:30 og kk 19:30-21:00, fyrir 13-16 ára (mán og mið)
FIFA Playstation 4 – bæði kyn saman, skipt upp í 10-12 ára 15:00-16:30 og 13- 16 ára 16:30-18:00 (þri og fim)
Overwatch – kynjaskipt, kvk 18.00-21:00 og kk 15:00-18:00, fyrir 10-16 ára (fös)
Apex/PubG – bæði kyn saman fyrir 13-16 ára, 10:00-13:00 (lau)
League of Legends – bæði kyn saman fyrir 13-16 ára, 13:00-16:00 (lau)
Fortnite – bæði kyn saman, skipt í 10-12 ára, 18:00-19:30 og 13-16 ára, 19:30-21:00
(þri og fim)

Fylkisbrennan verður á sínum stað við Rauðavatn 31.desember kl . 20:30.  Hvetjum alla til að mæta og kveðja árið 2019.

Bragi Baldursson ætlar amk að mæta með sínu fólki 🙂

Í dag, gamlársdag, voru valin íþróttakarl og íþróttakona Fylkis árið 2019 við hátíðlega athöfn í Fylkishöll. Þar að auki var heiðursmerki félagsins veitt sjálfboðaliðum, velunnurum og vinum fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins í áranna rás.

Íþróttakona Fylkis er Iveta Ivanova úr karatedeild Fylkis, en hún hefur á árinu náð glæstum árangri í sinni grein. Iveta er í landsliði Karatesambands Íslands og hefur verið þar í sex ár eða frá því hún var 12 ára. Iveta er þjálfari í karatedeild Fylkis og líta aðrir iðkendur deildarinnar mikið upp til hennar. Iveta hefur haldið utan um félagsstarfið hjá deildinni og skipulagt viðburði tengda félaginu með miklum sóma. Hún tók svart belti á árinu í sportkarate, yngst allra í heiminum frá stofnun stílsins sem stofnaður var fyrir fimmtán árum. Iveta náði frábærum árangri í þeim mótum sem hún tók þátt í á árinu, en hún lenti þrisvar sinnum í fyrsta sæti, tvisvar í öðru sæti og þrisvar í þriðja sæti. Meðal annars varð hún íslandsmeistari í opnum flokki.

Í flokki kvenna voru einnig tilnefndar Cecilía Rán Rúnarsdóttir úr knattspyrnudeild Fylkis, Katharina Sybilla Jóhannsdóttir úr fimleikadeild Fylkis og Margrét Einarsdóttir úr handknattleiksdeild Fylkis.

Íþróttakarl Fylkis er Ólafur Engilbert Árnason úr karatedeild Fylkis. Ólafur er í landsliðinu og hefur verið fastamaður þar síðan hann var 14 ára. Ólafur hefur verið iðkandi hjá Fylki síðan hann var barn og hefur komið mikið að þjálfun og stenumörkun hjá karatedeildinni undanfarin ár. Nú býr Ólafur í Danmörku í námi þar sem hann æfir með landsliði Dana undir handleiðslu Allan Busk sem er fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands. Ólafur keppir í erfiðasta karlaflokknum í kumite (frjálsum bardaga) sem er -75 kg. og hefur skákað þeim bestu í heiminum. Ólafur hefur náð frábærum árangri á árinu og unnið fjögur mót, lent fjórum sinnum í öðru sæti og þrisvar í þriðja sæti. Ólafur er íslandsmeistari í opnum flokki.

Í flokki karla var einnig tilnefndur Valdimar Þór Ingimundarson úr knattspyrnudeild Fylkis.

Sem fyrr sagði voru heiðursmerki félagsins einnig veitt í dag. Í hópi þeirra sem viðurkenningu fengu var Jakob Halldórsson, sem fékk heiðurskross Fylkis, æðstu viðurkenningu félagsins fyrir störf sín í þágu þess. Heiðurskrossinn geta aðeins tuttugu manns borið í senn og er Jakob sá tólfti sem viðurkenninguna hlýtur. Jakob var á sínum tíma leikmaður félagsins í knattspyrnu og þjálfari þess flokks knattspyrnudeildar sem vann fyrsta titil félagsins. Þá var Jakob formaður Fylkis árið 1981-1982 og starfaði þar að auki sem bókari knattspyrnudeildar og bókari félagsins í um tuttugu ár. Þá hefur Jakob starfað í ótal nefndum og ráðum í félaginu. Störf hans fyrir Fylki í gegnum tíðina eru ómetanleg.