,

Æfingahlé hjá barna- og unglingastarfi Fylkis vegna samkomubanns

Eins og flestir ættu að vita settu yfirvöld á samkomubann sem á að taka gildi á mánudaginn næsta 16.mars og gilda til 13.apríl.

Bannið er sett á til að hægja á útbreiðslu Covid-19 og minnka líkurnar á að viðkvæmir einstaklingar veikist.
Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar með taldir íþróttaviðburðir þar sem fleiri en 100 manns koma saman.
Á samkomum þar sem færri en 100 eru samankomnir, skal eins og mögulegt er skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga.
Takmarkanir gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.
Þar skal tryggja að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar í sama rými og að einstaklingar blandist ekki milli hópa fyrir og eftir æfingar.

Forsvarsmenn félagsins hafa verið að skoða um helgina hvernig íþróttastarf barna og unglinga hjá félaginu geti farið fram samkvæmt skilyrðum væntanlegs samkomubanns.
Einnig er félagið að bíða eftir leiðbeinandi tilmælum frá Borgaryfirvöldum og íþróttahreyfingunni.
Meðan þessi staða er uppi þá verður algjört æfingastopp hjá barna- og unglingastarfi félagsins í öllum deildum.  Þess ber að geta að mörg sérsambönd hafa brugðist við með algjöru leikja- og mótabanni meðan á samkomubanninu stendur.
Eins og fyrr segir þá eru forsvarsmenn félagsins og deilda þess að skoða hvort og þá hvernig væri hægt að halda úti einhverju starfi þessar fjórar viku en það eru allir sammála um að við erum ekki að fara af stað nema fyllsta öryggis sé gætt og farið sé eftir því sem búið er að gefa út.  Það er ljóst að það er mjög mismunandi eftir greinum hvernig væri hægt að halda úti æfingum og eru deildir félagsins að skoða þá möguleika sem koma til greina.
Allar nýjar upplýsingar verða settar á heimasíðu og Facebook síðu félagsins ásamt því að þjálfarar munu koma upplýsingum til sinna hópa.

Frístundavagninn mun ekki ganga meðan samkomubannið er í gildi.

Við höfum þá trú að ef við stöndum öll saman og fylgjum þeim tilmælum sem gefin eru út þá mun þetta ganga hratt yfir.