,

Frá íþróttafélaginu Fylki vegna kórónaveirunnar COVID-19

Aðalstjórn íþróttafélagsins Fylkis samþykkti í dag tillögu Björns Gíslasonar, formanns, um að vekja sérstaka athygli á leiðbeiningum sóttvarnarlæknis í tengslum við kórónaveiruna COVID-19. Iðkendur, þjálfarar, stjórnir deilda og forráðamenn félagsins eru hvattir til að fylgjast með nýjustu uppfærslum varðandi skilgreiningar á áhættusvæðum. Þeir sem hyggja á ferðalög ættu að kynna sér allar upplýsingar varðandi smitsvæði á vefsíðu Embættis landlæknis. Félagið bendir öllum sem tengjast félaginu á að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis um sóttkví vegna veirunnar hafi aðilar verið á skilgreindum áhættusvæðum. Mælst er til þess að þeir sem hafi verið nýlega á þessum áhættusvæðum fari í fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð. Hafa ber í huga þau áhrif sem aðgerðir stjórnvalda á áhættusvæðum geta haft á ferðaáætlanir og fylgjast vel með fréttum, þarlendis og á vef Embættis landlæknis þar sem skilgreiningar á svæðum með viðvarandi smit geta breyst hratt.

 

Embætti landlæknis uppfærir reglulega upplýsingar á vefsíðu landlæknis hér.

 

Mælst er til þess að iðkendur, þjálfarar og aðrir sem koma að starfi félagsins hugi vel að persónulegu hreinlæti (handþvottur, klútur fyrir vit við hnerra eða hósta). Með auðveldum hætti er hægt að draga úr sýkingarhættu með því að gæta vel að sínu persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og munn eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.

 

Hér á vefsíðu Embættis landlæknis má sjá ráðleggingar til ferðamanna.

 

Íþróttafélagið Fylkir mun fylgjast náið með þróun mála og bregðast við þeim tilmælum sem berast frá yfirvöldum.   

Mikilvægt er að forráðamenn iðkenda fari eftir þeim leiðbeinandi reglum sem gefnar hafa verið út.

Félagið hefur gefið það út til þjálfara að forðast óþarfa snertingar milli iðkenda og starfsmanna.

Einnig að þjálfarar brýni fyrir iðkendum að þvo sér reglulega um hendur.

 

„Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að lágmarka áhrifin af veirunni. Förum að fyrirmælum fagaðila og almannavarna og fylgjumst vel með fréttum. Ég tek undir með Landlækni og segi: Almannavarnir eru við öll,“ segir Björn Gíslason formaður aðalstjórnar Fylkis.

 

Frekar upplýsingar til fjölmiðla veitir Björn Gíslason, formaður aðalstjórnar Fylkis, í síma 862-7277.