,

Iveta og Ólafur Engilbert eru íþróttakona og íþróttakarl Fylkis 2019

Í dag, gamlársdag, voru valin íþróttakarl og íþróttakona Fylkis árið 2019 við hátíðlega athöfn í Fylkishöll. Þar að auki var heiðursmerki félagsins veitt sjálfboðaliðum, velunnurum og vinum fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins í áranna rás.

Íþróttakona Fylkis er Iveta Ivanova úr karatedeild Fylkis, en hún hefur á árinu náð glæstum árangri í sinni grein. Iveta er í landsliði Karatesambands Íslands og hefur verið þar í sex ár eða frá því hún var 12 ára. Iveta er þjálfari í karatedeild Fylkis og líta aðrir iðkendur deildarinnar mikið upp til hennar. Iveta hefur haldið utan um félagsstarfið hjá deildinni og skipulagt viðburði tengda félaginu með miklum sóma. Hún tók svart belti á árinu í sportkarate, yngst allra í heiminum frá stofnun stílsins sem stofnaður var fyrir fimmtán árum. Iveta náði frábærum árangri í þeim mótum sem hún tók þátt í á árinu, en hún lenti þrisvar sinnum í fyrsta sæti, tvisvar í öðru sæti og þrisvar í þriðja sæti. Meðal annars varð hún íslandsmeistari í opnum flokki.

Í flokki kvenna voru einnig tilnefndar Cecilía Rán Rúnarsdóttir úr knattspyrnudeild Fylkis, Katharina Sybilla Jóhannsdóttir úr fimleikadeild Fylkis og Margrét Einarsdóttir úr handknattleiksdeild Fylkis.

Íþróttakarl Fylkis er Ólafur Engilbert Árnason úr karatedeild Fylkis. Ólafur er í landsliðinu og hefur verið fastamaður þar síðan hann var 14 ára. Ólafur hefur verið iðkandi hjá Fylki síðan hann var barn og hefur komið mikið að þjálfun og stenumörkun hjá karatedeildinni undanfarin ár. Nú býr Ólafur í Danmörku í námi þar sem hann æfir með landsliði Dana undir handleiðslu Allan Busk sem er fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands. Ólafur keppir í erfiðasta karlaflokknum í kumite (frjálsum bardaga) sem er -75 kg. og hefur skákað þeim bestu í heiminum. Ólafur hefur náð frábærum árangri á árinu og unnið fjögur mót, lent fjórum sinnum í öðru sæti og þrisvar í þriðja sæti. Ólafur er íslandsmeistari í opnum flokki.

Í flokki karla var einnig tilnefndur Valdimar Þór Ingimundarson úr knattspyrnudeild Fylkis.

Sem fyrr sagði voru heiðursmerki félagsins einnig veitt í dag. Í hópi þeirra sem viðurkenningu fengu var Jakob Halldórsson, sem fékk heiðurskross Fylkis, æðstu viðurkenningu félagsins fyrir störf sín í þágu þess. Heiðurskrossinn geta aðeins tuttugu manns borið í senn og er Jakob sá tólfti sem viðurkenninguna hlýtur. Jakob var á sínum tíma leikmaður félagsins í knattspyrnu og þjálfari þess flokks knattspyrnudeildar sem vann fyrsta titil félagsins. Þá var Jakob formaður Fylkis árið 1981-1982 og starfaði þar að auki sem bókari knattspyrnudeildar og bókari félagsins í um tuttugu ár. Þá hefur Jakob starfað í ótal nefndum og ráðum í félaginu. Störf hans fyrir Fylki í gegnum tíðina eru ómetanleg.