Birkir Jakob Jónsson (14 ára) í 3 flokki Fylkis er kominn heim eftir frábæra viku ferð til Molde FK í Noregi þar sem honum var boðið að æfa með akademíu félagsins.
Þar æfði hann með U15, U16 og U19 liðum Molde.  U19 er varalið félagsins. Hann stóð sig mjög vel og var boðið að koma aftur seinna.

Óskum við Birki til hamingju með góða frammistöðu og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Mynd frá Íþróttafélagið Fylkir.

Við erum Fylkir – Eitt allra besta félag landsins?

Þegar ég flutti til landsins nú síðsumar eftir að hafa búið erlendis um nokkurt skeið, þá var ég ekki á leið inn í stjórn KND í þriðja sinn. Þegar hugmyndin var borin upp við mig fannst mér hún fjarlæg en á skömmum tíma rifjaðist upp allt það sem Fylkir hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna fyrir Fylki og að börnin mín hafi fengið að vaxa hér og dafna.

Það fór því þannig að ég tók við formennsku í stjórn knattspyrnudeildar á síðasta aðalfundi hennar. Það gerði ég eingöngu með að markmiði að við héldum áfram okkar góða starfi og jafnframt að laga það sem betur má fara. Fyrir mér er lykilþátturinn það forvarnarstarf sem fer fram innan íþróttafélagsins og að halda iðkendum sem lengst í heilbrigðu og fjölbreyttu starfi. Halda draumum þeirra lifandi. Önnur afrek skipta máli, en minna máli.

Hafandi fylgst með Fylki í fjarska í nokkur ár kom mér á óvart hversu fá fyrirtæki eru styðja við félagið í dag og hversu hratt sjálfboðaliðar hlaupa fyrir félagið eftir fjármunum til að halda úti öflugu starfi.

Við höfum í gegnum tíðina verið afar stolt af okkar barna- og unglingastarfi og byggt okkar meistaraflokka að mestu á uppöldum leikmönnum. Það hefur haldið okkur á meðal þeirra bestu á Íslandi, bæði í karla og kvennaflokki í áraraðir.

Mér lék forvitni að vita hvernig við getum mælt gott uppeldisstarf og fékk tölfræðiáhugamanninn Leif Grímsson til að taka saman nokkrar staðreyndir um uppruna leikmanna tveggja síðustu tímabila í Pepsi deild karla og sjálfur tók ég saman uppruna þriggja landsliðshópa frá mismundandi tíma, eða EM hópinn 2016, HM hópinn 2018 og síðasta landsliðshóp nú í nóvember.

Þessar tölur hér að neðan eða á myndunum, sýna svo ekki verður um villst að Fylkir er með eitt allra besta barna- og unglingastarf landsins.

Þessi árangur kom ekki af sjálfu sér. Fjöldi þjálfara, sjálfboðaliða og fyrirtækja, og þar stærst og í langan tíma, Nóatún og Bónus, hafa lagt félaginu til ómetanlegan stuðning. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.

Nú leitum við að nýjum samstarfaðilum og tilgangur þessa pistils er að vekja athygli á því að við erum tilbúin til samstarfs til skemmri eða lengri tíma við fyrirtæki af öllum stærðum og einstaklinga til að geta haldið úti okkar öfluga uppeldis og forvarnarstarfi.

Þessa dagana eru fulltrúar frá félaginu að leita að samstarfsaðilum og þætti okkur vænt um að þið mynduð taka vel á móti þeim eða jafnvel hafa samband af fyrra bragði ( haffisteins@fylkir.is) til að létta okkur verkið.

Það ætti að vera hverju fyrirtæki óhætt að setja nafn sitt við Fylki.

Fyrirfram þakkir

“Sameinaðir stöndum vér, appelsínugulur her” 

Sjáumst í Lautinni

Kjartan Daníelsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis.

Mynd frá Íþróttafélagið Fylkir.

Mynd frá Íþróttafélagið Fylkir.

Mynd frá Íþróttafélagið Fylkir.

 

Herrakvöld Fylkis verður föstudaginn 24. janúar. 

Það er verið að klára að setja saman dagskrá kvöldsins. 

Takið kvöldið frá og skemmtum okkur saman á þessari frábæru skemmtun. 

FYLKIR ÁRBÆJARINS BESTA

Á aðalfundi knattspyrnudeildar 23.október  var kosin ný stjórn.  Formaður var kosinn Kjartan Daníelsson og aðrir í stjórn eru Stefanía Guðjónsdóttir sem verður varaformaður, Arnar Þór Jónsson verður gjaldkeri, Júlíus Örn Ásbjörnsson verður ritari og Ragnar Páll Bjarnason verður meðstjórnandi.  Óskum við nýrri stjórn til hamingju með kjörið.  Þau sem hættu í stjórn voru Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Sigfús Kárason og Þórður Gíslason.  Þökkum við þeim fyrir frábært starf fyrir félagið og óskum þeim góðs gengis.

Ný stjórn knattspyrnudeildar Fylkis

 

Fylkisstrákarnir Birkir Jakob Jónsson og Heiðar Máni Hermannsson spiluðu í gær fyrsta landsleikinn sinn á UFEA móti í Póllandi.  Leikurinn var á móti Bandaríkjunum og tapaðist 1-2.  Til hamingju strákar og áfram Ísland.

 

Dómaranámskeið – foreldrar

 

Kæru foreldrar og forráðamenn,

 

Miðvikudaginn 6.11 kl. 19:00 fer fram árlegt unglingadómaranámskeið í Fylkishöll á vegum KSÍ. Námskeiðið er ætlað iðkendum, þjálfurum, foreldrum/forráðamönnum og öllum þeim sem hafa áhuga á að prófa dómgæslu. Iðkendur frá yngra ári í 3. flokki og upp úr, mega fara á námskeiðið. Námskeiði er tvíþætt. Fyrri hluti er frá kl. 19:00 – 21:00 þann 6.11 og viku síðar er stutt próf sem þarf að standast til að öðlast réttindi sem unglingadómari.

Unglingadómarar hafa réttindi til að dæma í 4. flokki og sem aðstoðardómarar upp í 2. flokk. Athugið að KSÍ býður einnig upp á héraðsdómaranámskeið í framhaldinu, sem gefur réttindi til að dæma í öllum flokkum. Ekkert þátttökugjald er á námskeiðin.

Á hverju ári eru spilaðir u.þ.b. 200 heimaleikir í yngri flokkum Fylkis, sem þarf að manna með dómara og aðstoðardómara á hvern leik. Það er því nóg af verkefnum fyrir áhugasama dómara en á síðustu árum hefur dómgæsla á vegum Fylkis verið til fyrirmyndar, sbr. viðurkenningu fyrir dómaramál sem félagið fékk á 72. ársþingi KSÍ árið 2018. Iðkendur í 2. og 3. flokkir KVK og KK sjá að mestu um hlutverk aðstoðardómara en mikilvægt að fá fleiri aðila að borðinu sem geta tekið að sér hlutverk aðaldómara.

Til þess að við getum haldið áfram þessu góða starfi er mikilvægt að fá fleiri foreldra/forráðamenn til að sinna dómgæslu og því hvetjum við alla til að mæta á námskeiðið. Kostir þess að sinna dómgæslu er meðal annars:

  • Skemmtileg hreyfing í góðum félagsskap.
  • Þeir sem klára prófið og dæma 15 leiki fá dómaraskírteini KSÍ sem veitir ókeypis aðgang að öllum leikjum á Íslandi – Deild, bikar og landsleiki.
  • Greitt er fyrir dómgæslu hjá Fylki samkvæmt gjaldskrá.
  • Áhugasamir geta í framhaldinu sótt um að dæma leiki hjá KSÍ og hafa margir dómarar á vegum Fylkis gert það.
  • Góð leið til að kynnast starfsemi félagsins betur og iðkendum þess.

Við vonum að sem flestir skrái sig á námskeiðið og endilega deilið þessu sem víðast.

Skráning fer fram hjá Halldóri Steinssyni íþróttafulltrúa Fylkis. doristeins@fylkir.is

Endilega hafið samband ef spurningar vakna,

kveðja

Ólafur Bjarkason dómarastjóri Fylkis

olafurbbb@gmail.com

S: 6919614