Hiða árlega Jólablað Fylkis kom út fyrir jólin og þar er hægt að kynna sér það frábæra starf sem er unnið innan félagsins.

Hér fyrir neðan er hlekkur á blaðið

Jólablað Fylkis 2025

 

Harpa Karen framlengir samning sinn við Fylki!

Knattspyrnudeild Fylkis tilkynnir með mikilli gleði að Harpa Karen Antonsdóttir hefur framlengt samning sinn við Fylki út keppnistímabilið 2026. Við væntum þess að hún eigi eftir að leggja mikið af mörkum til liðsins á komandi tímabili að vinna til baka sæti okkar í Lengjudeildinni.

Harpa Karen er uppalin hjá Val en kom til félagsins fyrir síðasta tímabil. Hún hefur leikið 120 KSÍ leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 12 mörk.
Við bindum miklar vonir við Hörpu Karen á komandi keppnistímabili og hlökkum til að sjá hana áfram spila í appelsínugulu.

Föstudaginn 16. janúar fór Herrakvöld Fylkis fram þar sem yfir 500 gestir komu saman og nutu glæsilegrar dagskrár. Listaverkauppboð og happdrætti voru í aðalhlutverki og ríkti frábær stemning allt kvöldið.

Dregið hefur verið úr vinningsnúmerum kvöldsins og má finna lista yfir vinninga hér. Vinningshafar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu Fylkis.

Vinningsskrá - 2026

Herrakvöld Fylkis hefur verið fastur liður í félagssstarfi Fylkismanna áratugum saman. Markmiðið með Herrakvöldum Fylkis er að Fylkismenn, vinir og velunnarar komi saman og geri sér glaðan dag, borði góðan mat og skemmti sér saman. Auk alls þessa eru Herrakvöld Fylkis afar mikilvæg í fjáröflun Knattspyrnudeildar Fylkis.

Hér má finn yfirlit yfir öll málverk sem verða gefin upp á kvöldinu og upplýsingar um listamenn á bakvið verkin.


Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir fæddist árið 1946 að Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Hún hefur lengst af búið á Reykjavíkursvæðinu en hefur snúið á heimaslóðir á ný og býr nú jöfnum höndum í Garðabæ og á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð við bakka Þverár. Hún stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1978 og 1979, Myndlista- og handíðaskóla Íslands nú Listaháskóla Íslands, 1980-1984 og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Árin 1999-2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs.

Hrafnhildur Inga málar myndir sem lýsa skýjafari, veðurfari og sjólagi. Hún er mikið náttúrubarn og sækir myndefnið oft á sínar heimaslóðir í Fljótshlíðinni þar sem hún horfir eftir endilangri suðurströndinni þar sem skýin hrannast upp og velta sér eftir sjóndeildarhringnum og eru aldrei andartak eins.

Hrafnhildur Inga á vinnustofu sinni að Bæjarhálsi 98 ásamt Val Ragnarssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis. Verkið heiti Kirkjan og verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis. Hrafnhildur (s 821 3993) tekur vel á móti fólki á Bæjarhálsinum.


Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari sem nam og starfaði á Englandi og á Ítalíu er listakona sem hefur hlotnast fjöldi viðurkenninga fyrir list sína hérlendis sem og erlendis á ferli sem spannar nú yfir 45 ár. Steinunn hefur haldið fjölmargar sýningar víðsvegar um Evrópu, í Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada og verk hennar er að finna um allan heim, jafnt á virtum söfnum sem og í einkaeigu. Nýverið kom út bókin Maður sem inniheldur myndir af öllum helstu verkum Steinunnar, auk þess sem bæði innlendir og erlendir sérfræðingar fjalla um listferil hennar og verk frá fjölbreyttum sjónarhornum.

Það er okkur sérstök ánægja að kynna að listaverk eftir Steinunni verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis þann 16. janúar nk.

Steinunn ásamt Atla Atlasyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis með verkið Brunnur 4/7


Þorvaldur Jónsson útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hérlendis og utan landsteinanna, til dæmis í Þýskalandi, Kína og Tyrklandi. Verk hans hafa meðal annars verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni í Kópavogi, Hafnarborg, Listasafni Akureyrar og Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Þorvaldur er einn af stofnendum Gallery Ports á Laugavegi.Verk Þorvaldar eru einskonar sögusvið þar sem ýmsar atburðarrásir eiga sér stað.

Það er ánægjulegt að kynna að mynd eftir Þorvald verður boðin upp á Herrakvöldi Fylkis þann 16. janúar nk. Í verkinu má m.a. finna tilvísun í merki Fylkis, herrakvöldið og knattspyrnu.

Þorvaldur með verkið Kúlupenni sem verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis.


Sossa hefur í mörg ár lagt Fylki lið með verkum á Herrakvöldinu og notið mikilla vinsælda. Hún lærði myndlist í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám í Konunglegu dönsku listaakademíunni í Kaupmannahöfn og lauk svo meistaragráðu við listaháskóla í Boston árið 1993. Hún hefur haldið sýningar víða um heim s.s. á Alþjóðlega tvíæringnum í Peking í Kína, Koppelman Gallery í Massachusetts, Galleri Sct. Gertrud í Kaupmannahöfn, Mac Gowan Fine Art í Bandaríkjunum, Aalborg Art Association í Danmörku, Galeria de Arte í Portúgal, við listasafn Norrænu ráðherranefndinar, Tvíæringnum í Flórens, Art Apart í Singapore og í Gallerí Fold í Reykjavík. Sossa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína í gegnum árin.

Sossa á vinnustofu sinni ásamt Arnari Þór Jónssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis. Verkið heitir Fingurkoss og verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis.


Húbert Nói Jóhannesson útskrifaðist úr Nýlistadeild Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 1987. Á námsárum sínum hóf Húbert Nói að notast eingöngu við minni til að kortleggja innri veruleika í tilvist með ytri veruleika og minnið, verandi persónulegasta nálgun sem listamaður hefur aðgang að, er einskonar kjarni höfundarverks Húberts.
Á undan námi í myndlist nam Húbert líffræði og jarðfræði við Háskóla Íslands og samfara því vann hann við jarðfræðirannsóknir á hálendi Íslands. Sú upplifun í áhrifaríku þöglu umhverfi hálendisins sem Húbert skannaði með mælitækjum nútímans má sjá síðar í verkum Húberts Nóa.
GPS verkin koma til sögunnar snemma árs 1996. Í þessum verkum er meðvitað verið að nota rómantískta upplifun manneskju í sama mund og skráð er staðsetning með aðstoð gervitungla og atóm-klukku tímamaælinga, hátækni geimaldar.

Þessi verk ávarpa þannig djúpar tilfinningar og vitsmuni á sama tíma, Þan tilfinninga og vitsmuna manneskju í tengslum við aukna náttúru og umhverfisvitund. Þegar ég íhuga verkin við gerð þeirra hugsa ég til gervitungla á sporbaug jarðar ekki síður en það sem fyrir augu ber í kyrru landslagi.“
Verk Húberts Nóa eru í eigu allra helstu opinberra safna á Íslandi auk einkasafna hérlendis, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi.
Þess má geta að Húbert Nói sem er uppalinn í Árbænum æfði handbolta og fótbolta með Fylki. Húbert var í 5. flokks liði Fylkis í fótbolta sem vann til fyrstu verðlauna félagsins í fótbolta þegar liðið sigraði Reykjavíkur mótið árið 1973.

Hóbert Nói ásamt Loga Ragnarssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis við verkið sem boðið verður upp á Herrakvöldinu: 64° 12 180 N, 21°45 513 W. 260° True North


Pétur Gautur hefur um árabil lagt Fylki lið með verkum á Herrakvöldinu og notið mikilla vinsælda. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1991 og nam m.a. leikmyndagerð í gamla konunglega leiklistarskólanum Statens Teaterskole í Kaupmannahöfn í Danmörku. Pétur Gautur hefur verið atkvæðamikill kyrralífsmálari í yfir þrjátíu ár og verk hans eru landsmönnum vel kunn, en hann er helst þekktur fyrir uppstillingar sínar þar sem jafnan koma við sögu ávextir eða blóm. Hann hefur unnið af krafti að list sinni í yfir þrjátíu ár bæði á Íslandi og í Danmörku og hefur haldið á þriðja tug einkasýninga hérlendis og í Danmörku og Svíþjóð.

Uppstillingar eru klassískt mótíf í listasögunni sem Pétur Gautur hefur kannað og leikið sér að í gegnum ferilinn og er hann vel þekktur fyrir þessar tímalausu kyrralífsmyndir sínar og ferskt litaval. Hann trúir á einfaldleikann og notar oft óhefðbundna, en vel valda liti í myndir sínar.

Pétur Gautur á vinnustofu sinni ásamt Atla Atlasyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis. Verkið heitir Dansandi valmúar og verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis.


Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd 1963 og nam myndlist í Myndlistarskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1983-88. Þá fór hún utan og lagði stund á íkonamálun í Fransescane Missionarie di María klaustrinu í Róm og þá tók við listnám við Ríkisakademíuna í Flórens á Ítalíu árin 1987-93. Kristín er einn afkastamesti og ástsælasti listamaður samtímans sem á að baki fjölmargar viðamiklar sýningar og verk víða í opinberri eigu.

Kristín hefur vakið athygli fyrir að vera óhrædd við að brjóta upp myndmál sitt og aðferðir. Hún sækir í aldagamlar hefðir íkonamálunar og skapar fígúratíf málverk sem byggjast á margslungnu táknkerfi. Þá vinnur hún abstraktverk. sem kallast á við tjáningarmáta módernismans, sem og vandlega útfærð útsaumsverk sem byggja á skjótunnum skissum – svo nokkur dæmi séu tekin. Í gegnum myndir hennar má skynja hvernig hún nálgaðist viðfangsefnið með virðingu, forvitni og næmni fyrir því hvernig líkaminn og myndmálið geta tjáð það sem ekki verður sagt með orðum. Sérvaldar vísbendingar fylgja með, stelling, hlutur, litur eða áferð, sem styðja áhorfendur í að nema hið ósagða.

Um þessar mundir er yfirlitssýning með verkum hennar hjá Listasafni Íslands á Kjarvalsstöðum og hefur sýningin notið mikilla vinsælda enda gefur hún gott yfirlit yfir verk og feril Kristínar.

Kristín Gunnlaugsdóttir á vinnustofu sinni ásamt Loga Ragnarssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis. Verkið samanstendur af tveimur verkum sem heita Baun I og Baun II og verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis.


Hjalti Parelius sem bjó í Árbænum á yngri árum er fæddur árið 1979 í Reykjavík og stundaði listnám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og síðan við Danska hönnunarskólann í Kaupmannahöfn með áherslu á grafíska hönnun. Hjalti hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín og er hvað þekktastur fyrir olíumálverk þar sem teiknimyndamótíf eru í forgrunni.

Hjalti hefur haldið á annan tug einkasýninga hér á landi auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga. Því til viðbótar hefur Hjalti tekið þátt í samsýningum í Danmörku, Sviss og Þýskalandi.

Verk Hjalta hafa selst víða og sem dæmi má nefna að í höfuðstöðvum lyfjafyrirtækisins Alvotech er að finna verk eftir Hjalta sem eru mjög umfangsmikil en Hjalti vann að þeim verkum í 18 mánuði samfellt á sínum tíma.

Hjalti Parelíus á vinnustofu sinni, ásamt Val Ragnarssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis með verkið What the duck sem verður boðið upp á Herrakvöldi Fylkis.


Karen Ösp Pálsdóttir (f. 1992, Reykjavík) er íslenskur málari sem vinnur aðallega með olíu á striga. Listsköpun hennar byggir á raunsæi, en sveigir oft inn á súrrealísk og draumkennd svið. Blár litur ræður ríkjum í litasamsetningu hennar – ekki aðeins sem litur, heldur sem andrúmsloft þar sem viðfangsefnin birtast, leysast upp eða sundrast. Andlit endurspeglast í vatnsdropum, aflagast í gegnum gler eða leynast á bak við fíngerð mynstur, sem veitir portrettum hennar dulúð, trega og umbreytingu.
Hún lauk BFA-prófi frá Maryland Institute College of Art (MICA) í Baltimore árið 2013, með aukagrein í listasögu, og hefur á undanförnum árum búið og starfað til skiptis í New York borg og Reykjavík. Verk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, með einka- og dúó sýningum í Reykjavík, auk fjölmargra samsýninga í borgum á borð við New York, Washington DC, London, París, Barcelona og Annecy.

Málverk Karenar hafa jafnframt birst í virtum útgáfum á borð við New American Paintings, Create! Magazine, SFMOMA, Hyperallergic, Tibia Magazine og El País.
Það er Knattspyrnudeild Fylkis mikið ánægjuefni að kynna verk Karenar Aspar til leiks í fyrsta sinn á Herrakvöldi í samstarfi við listamanninn sjálfan og Þulu Listgallerí.

Um málverkið sem boðið verður upp á Herrakvöldi Fylkis nk föstudag:
Hair (bow) eða Hár (slaufa) er fyrsta sjálfsmynd listamannsins sem hefur aðallega fengist við að túlka fólk í sínu nærsamfélagi. Í stað þess að mæta áhorfanda auglitis til auglitis sjáum við aftan á hana sem býður upp á túlkun þess sem á það horfir og viðfangsefni myndarinnar, slaufa í hári marglaga táknmynd sem talar bæði inn í samtímann sem og horfna tíma. Málverkið er eingöngu málað með kóbalt bláum lit sem einkennir pallettu Karenar Aspar og þó svo það sé ofur raunsætt leyfir hún þó olíunni og pensilstorkunum að finna fyrir sér þegar nær er komið verkinu.


Þorlákur Kristinsson Morthens (f. 1953), betur þekktur sem Tolli er þekktur fyrir landslags og abstrakt verk sín síðan á 9. áratugnum. Tolli hefur í gegnum tíðina selt fleiri myndir en nokkur annar íslenskur myndlistarmaður og eru verk eftir hann m.a. í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og listasafns Háskóla Íslands, auk nokkurra stofnana í Evrópu og Bandaríkjunum.
Tolli er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og lauk þar prófi úr nýlistadeild árið 1983. Eftir það fór hann í Hochschule der Künste í Vestur-Berlín undir handleiðslu Karl-Horst Hödicke prófessors og sneri heim1985 og hefur starfað sem myndlistarmaður síðan. Fram að því hafði hann stundað sjómennsku við Íslandsstrendur, jafnt á fiskibátum og togurum. Hann var einnig farandverkamaður í ýmsum sjávarplássum víða um Ísland og skógarhöggsmaður í Norður-Noregi.

Fyrstu sýningar Tolla voru í Reykjavík og á Akureyri árið 1982 og fyrsta einkasýning hans var síðan í Gúmmívinnustofunni í Reykjavík árið 1984. Árin 1982 – 1992 sýndi hann tuttugu og tvær einkasýningar hér á landi og erlendis, og tók þátt í sautján samsýningum sem þykir mjög mikið. Þá hefur hann efnt til sýninga í Þýskalandi, Danmörku, Mónakó, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður-Kóreu.

Tolli sérhæfir sig í landslagsmálverkum og reynir að nálgast það á mismunandi vegu. Hann fær innblástur úr náttúrunni og hvað er að gerast í heiminum hverju sinni. Hann gengur mikið á fjöll og jökla, fer á kajak og heimsækir afskekkta staði til að styrkja tengslin enn frekar við náttúruna og sækir síðan minningar til að mála.
Viðfangsefni og stíll Tolla hafa breyst nokkuð ört og þróast. Eldri verkin voru mörg kraftmikil verk af dýrum og torkennilegum verum, dökkar myndir af sjávarsíðunni eða næstum logandi líkamar í undarlegri iðu. Um hríð heillaðist Tolli af torræðum hlíðum, líflausum skriðum og steinum innan um kalda fjalltinda en undanfarið hefur hann málað myndir af speglun í tjörnum, eldgosum og eyðibýlum og er að byrja að taka fyrir þokuna. Helsti munurinn á gömlu og nýju landslagsmyndum Tolla liggur í afstöðu hans til birtunnar. Áður mætti birtan afgangi; hún var tæki til að hnykkja á þrívídd og efnisþáttum landslagsins. Í dag er birtan hryggjarstykki verkanna. Fjöllin leysast upp eða renna saman með dularfullum hætti, það kviknar í jöklunum og hafið molnar niður í marglit mynstur.

Tolli, sem er mikill velgjörðarmaður Fylkis, hefur lagt félaginu til málverk fyrir Herrakvöld Fylkis í fjölda ára og það er okkur mikil ánægja að tilkynna að sami háttur verður á nk. föstudag.

Tolli á vinnustofu sinni, ásamt Birni Ágústssyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis með verkin þrjú sem boðin verða upp á Herrakvöldi Fylkis


Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir (f. 1981) lauk MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2009 og BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Verk hennar einkennast af ríkri efnishyggju þar sem hún kannar abstrakt myndmál með fjölbreyttum efnum og aðferðum.
Áslaug hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum á söfnum og galleríum víðs vegar um Evrópu, Bandaríkin og á Íslandi. Af samsýningum má nefna Looking Inward, Looking Outward: 140 Years of the National Gallery of Iceland í Listasafni Íslands, Stellingar | Linear Narratives í Berg Contemporary og Skúlptúr Skúlptúr í Gerðarsafni. Meðal einkasýninga hennar eru Open í Þulu, Bergmál í Listval Gallery, Heritage í Þulu og Skil | Skjól í Neskirkju.

Hún tók þátt í CHART listamessunni í Kaupmannahöfn árið 2024, Market listamessunni í Stokkhólmi árið 2023, auk samsýninga í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Verk Áslaugar eru í eigu bæði einkaaðila og opinberra safna.
Það er Knattspyrnudeild Fylkis mikið ánægjuefni að kynna verk Áslaugar Írisar til leiks í fyrsta sinn á Herrakvöldi í samstarfi við listamanninn sjálfan og Þulu Listgallerí.
Um verkið sem boðið verður upp á Herrakvöldi Fylkis nk föstudag: Kjarni var hluti af sýningunni Spegilmynd sem fjallar um umbreytingu, þroska og nýja mynd sjálfsins. Kjarni vísar beint í okkar eigin kjarna og formin í verkinu minna á fiðrildi að brjótast út úr lirfuformi sínu og takast á flug, eða bók sem opnuð er á nýjan kafla lífsins. Litagleði einkennir oftar en ekki nýleg verk Áslaugar sem sér liti í tónlist og það má segja að verkið Kjarni sé einstaklega hljómfagurt verk þar sem vatnslitir, kol og pastell stíga taktinn í innsta kjarnanum.


Þorgrímur Andri Einarsson (f. 1980) er listamaður sem lærði hljóðhönnun í School of Audio Engineering í London og útskrifaðist frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi með BA gráðu í tónlist. Síðan þá hefur hann í auknum mæli einbeitt sér að myndlist.

Þorgrímur Andri er kunnur fyrir einstakt listrænt sjónarhorn og fjölbreytt myndefni, þar sem hann dregur oft innblástur úr íslenskri náttúru, menningu og sagnfræði. Verk Þorgríms bera oft vitni um djúpar tilfinningar og umhugsun um tengsl mannsins við umhverfi sitt. Hann hefur sýnt verk sín víða, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til listaheimsins.

Þorgrímur Andri hefur lagt Fylki lið undanfarin ár á Herrakvöldinu og notið mikilla vinsælda. Það er ánægjulegt að kynna að sami háttur verður á nk. föstudag þegar verk hans „Vestfirðir“ verður boðið upp. Þorgrímur Andri Einarsson (f. 1980) er listamaður sem lærði hljóðhönnun í School of Audio Engineering í London og útskrifaðist frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi með BA gráðu í tónlist. Síðan þá hefur hann í auknum mæli einbeitt sér að myndlist.

Þorgrímur Andri er kunnur fyrir einstakt listrænt sjónarhorn og fjölbreytt myndefni, þar sem hann dregur oft innblástur úr íslenskri náttúru, menningu og sagnfræði. Verk Þorgríms bera oft vitni um djúpar tilfinningar og umhugsun um tengsl mannsins við umhverfi sitt. Hann hefur sýnt verk sín víða, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til listaheimsins.

Þorgrímur Andri hefur lagt Fylki lið undanfarin ár á Herrakvöldinu og notið mikilla vinsælda. Það er ánægjulegt að kynna að sami háttur verður á nk. föstudag þegar verk hans „Vestfirðir“ verður boðið upp.

Þorgrímur Andri ásamt Atla Atlasyni í Herrakvöldsnefnd Fylkis með verkið Vestfirðir sem verður boðið upp á morgun, föstudag.

Fylkir Þjálfari

Dregið hefur verið í jólahappdrætti knattspyrnudeildar

Vinningshafar eru beðir um að senda tölvupóst á fylkir@fylkir.is til að fá upplýsingar um hvernig á að nálgast vinninginn.

Hér er hlekkur á vinningsnúmerin

Vinningsnúmer

Knattspyrnudeild Fylkis er ánægð að tilkynna að samkomulag hefur náðst við Júlíu Huld Birkisdóttir um framlengingu á samningi hennar, og mun nýgildandi samningur gilda út keppnistímabilið 2026.

Júlía Huld, fædd árið 2009 er uppalinn Fylkisleikmaður sem hefur spilað upp alla yngri flokka félagsins og verið lykilleikmaður þar síðustu ár. Júlía Huld hefur verið hluti af meistaraflokkshópi félagins síðustu 2 tímabil.

Við hjá Fylki erum afar stolt þegar uppaldir leikmenn halda tryggð við félagið, sýna metnað og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að styðja liðið og ná sameiginlegum markmiðum á komandi keppnistímabili.

Við bindum miklar vonir við Júlíu Huld á komandi keppnistímabili og hlökkum til að sjá hana áfram spila í appelsínugulu.

Iðkendur í 5. flokki karla og kvenna hjá Fylki í handbolta sækja og farga jólatrjám í póstnúmeri 110 þann 7. janúar 2026, sem hluti af fjáröflun fyrir flokkana.

Förgun fyrir hvert tré kostar 4.000 krónur. Samhliða skráningu þarf að leggja inn á reikning 0331-26-5805, kt 571083-0519 og senda kvittun á fylkir@fylkir.is með heimilisfang sem tilvísun. Vinsamlegast gætið þess að sama nafn sé á millifærslu og skráningu.

Athugið að tekið verður við skráningum til klukkan 22:00 þann 6. janúar og verður ekki hægt að panta förgun eftir það.

Skráning fer fram hér: https://forms.gle/fM3CVuJCCyVZCut56

Hið árlega jólakaffi Fylkis var haldið föstudaginn 19. desember þar sem Íþróttafólk, sjálfboðaliðar, félagsfólk og starfsmenn komu saman og fögnuðu árinu 2025 sem nú er að líða. Vel var mætt á viðburðinn þar sem veitt voru viðurkenningar til Íþróttafólks sem leika undir merkjum félagsins sem þóttu standa framúr á árinu ásamt því voru veitt heiðursverðlaun til félagsfólk og sjálfboðaliða sem hafa lagt gríðarlega vinnu sína fyrir félagið.

Það voru þau Ásgeir Eyþórsson og Signý Lára Bjarnadóttir sem voru útnefnd íþróttakarl og Íþróttakona Fylkis árið 2025 en bæði koma þau frá Knattspyrnudeild Fylkis og spila með meistaraflokkum félagsins. Auk þeirra voru

Saker Nasser frá karatedeild Fylkis en eljusemi hans hefur skilað sér í miklum framförum, en á síðastliðnu ári hefur hann skipað sér sess sem fastamaður í íslenska landsliðinu og tók í ár þátt á Norðurlandameistaramótinu fyrir hönd Íslands.

Þórarinn Gunnar Óskarsson hefur verið lykilleikmaður meistaraflokks karla í körfubolta og verið valinn mikilvægasti leikmaður liðsins öll þrjú árin síðan að liðið var stofnað aftur. Á árinu 2025 hefur Þórarinn spilað stórt hlutverk í því að koma meistaraflokki karla aftur í fyrstu deild.

T.v. Hörður Guðjónsson framkv. stjóri Fylkis, Signý Lára Bjarnadóttir, Eyþór Kolbeinsson (f.h. Ásgeirs), Saker Nasser, Þórarinn Gunnar Óskarsson og Björn Gíslason formaður félagsins

Einnig voru veitt heiðursmerki félagsins.

þar sem Rúnar Geirmundsson var sæmdur heiðurskrossi Fylkis. Rúnar er frumbyggi í Árbænum og því sannur Fylkismaður. Rúnar gegndi formennsku í félaginu á árunum 1998–2002 og starfaði jafnframt sem framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar árið 1991. Hann hefur verið styrktaraðili félagsins um árabil, bæði í gegnum fyrirtæki sitt og sem einstaklingur, og hefur auk þess setið í fjölmörgum nefndum og starfshópum á vegum félagsins síðustu áratugi.

t.v. Hörður Guðjónsson framkv. stjóri Fylkis, Rúnar Geirmundsson 19. Heiðurskrossfélagi Fylkis & Björn Gíslason formaður félagsins

Gullmerki félagsins hlaut svo listamaðurinn Húbert Nói fyrir árangursríkt samstarf í kringum herrakvöld Fylkis síðustu ár

t.v. Hörður framkv. stjóri, Húbert Nói & Björn Gíslason formaður félagsins

  • Ágúst Aron Gunnarsson, liðsstjóri meistaraflokks karla, knattspyrnudeild

  • Atli Már Agnarsson, fulltrúi í meistaraflokksráði kvenna, knattspyrnudeild

  • Elsa Jakobsdóttir, starfsmaður, Íþróttafélagið Fylkir

  • Erik Steinn Halldórsson, starfsmaður, Íþróttafélagið Fylkir

  • Guðrún Inga Sívertssen, stjórnarmaður, handknattleiksdeild

  • Hrönn Vilhjálmsdóttir, stjórnarmaður, handknattleiksdeild

  • Kristján Gylfi Guðmundsson, þjálfari og starfsmaður, knattspyrnudeild

  • Víkingur Sigurðsson, þjálfari, körfuknattleiksdeild

t.v. Hörður framkv. stjóri Fylkis, Ágúst Aron, Atli Már, Elsa Jakobsdóttir, Erik Steinn, Guðrún Inga, Hrönn Vilhjálmsdóttir, Kristján Gylfi, Víkingur Sigurðsson & Björn Gíslason formaður félagsins.

Íþróttafélagið Fylkir heiðraði íþróttafólk sitt fyrir árið 2025, föstudaginn 19. desember, þegar tilkynnt var um val á íþróttafólki ársins hjá félaginu.

Ásgeir Eyþórsson er reynslumesti og leikjahæsti leikmaður í sögu Knattspyrnudeildar Fylkis. Ásgeir hefur leikið allan sinn feril með Fylki og hefur alls spilað 393 leiki fyrir meistaraflokk félagsins, þar af 188 í efstu deild.

Signý Lára er uppalin í Árbænum og gegndi á yfirstöðnu tímabili hlutverki fyrirliða meistaraflokks kvenna í knattspyrnu. Hún var einn af lykilmönnum liðsins og er þekkt fyrir mikinn metnað, óbilandi vinnusemi og að gefast aldrei upp.

Auk þeirra voru Saker Nasser úr Karatedeild Fylkis og Þórarinn Gunnar Óskarsson úr Körfuknattleiksdeild tilnefndir sem íþróttafólk Fylkis árið 2025.

Öll eru þau frábærar fyrirmyndir innan félagsins og óskum við þeim innilega til hamingju með tilnefninguna og þá viðurkenningu sem henni fylgir.

 

 

 

 

 

 

 

Hörður Guðjónsson framkv. stjóri Fylkis, Signý Lára Bjarnadóttir, Ásgeir Kolbeinsson (f.h. Ásgeirs) og Björn Gíslason formaður félagsins.

T.v. Hörður Guðjónsson framkv. stjóri Fylkis, Signý Lára Bjarnadóttir, Eyþór Kolbeinsson (f.h. Ásgeirs), Saker Nasser, Þórarinn Gunnar Óskarsson og Björn Gíslason formaður félagsins

Guðrún Þóra framlengir samning sinn við Fylki!

Knattspyrnudeild Fylkis tilkynnir með mikilli gleði að Guðrún Þóra Geirsdóttir hefur framlengt samning sinn við Fylki út keppnistímabilið 2026. Við væntum þess að hún eigi eftir að leggja mikið af mörkum til liðsins á komandi tímabili að vinna til baka sæti okkar í Lengjudeildinni.

Guðrún Þóra er uppalin á Húsavík en kom til félagsins fyrir síðasta tímabil. Hún hefur leikið 92 KSÍ leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 11 mörk.

Gleði – Virðing – Metnaður