Stefán Gísli Stefánnsson hefur undanfarna daga verið á reynslu hjá Sænska félaginu Hammarby.
 
Stefán sem er 17 ára gamall hefur verið lykilmaður í 2.flokki félagsins undanfarið ásamt því að æfa með meistaraflokki félagsins en með þeim lék hann 2 leiki á liðnu tímabili. Hann fjölhæfur leikmaður sem getur spilað allar stöður á miðjunni ásamt því að vera frábær bakvörður, þa hefur hann leikið 11 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.
 
Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkar öfluga starf sem unnið er hjá okkur.
 
Það verður spennandi að fylgjast með Stefáni í framtíðinni enda einn af allra efnilegustu leikmönnum félagsins.
 
#viðerumÁrbær
Íþróttafélagið Fylkir sendir öllum Grindvíkingum stuðningskveðjur og vill í leiðinni bjóða öllum yngri flokka iðkendum úr Grindavík að æfa með félaginu án endurgjalds á meðan á óvissu tímum stendur.
 
Hjá Fylki eru 7 starfandi greinar: Fótbolti, Körfubolti, Handbolti, Fimleikar, Karate,Blak og Rafíþróttir
 
Vilji iðkendur Grindavíkur nýta sér þennan möguleika eru þeir beðnir að hafa samband við Viktor, viktor@fylkir.is eða í síma 772-4672
 
Æfingatöflur og aðrar upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.fylkir.is
 
Fylkir sendir öllum Grindvíkingum baráttukveðjur 🧡🖤💛💙
 
#stöndumsaman
#viðerumÁrbær
Aðalfundur knattspyrnudeildar Fylkis fór fram mánudagskvöldið 30. október þar sem ný stjórn deildarinnar var kjörin.
Í nýju stjórninni sitja þau Ragnar Páll Bjarnason formaður, Haraldur Úlfarsson, Hjördís Jóhannesdóttir, Stefanía Guðjónsdóttir og Valur Ragnarsson. Þessu til viðbótar voru eftirtaldir kynntir sem formenn ráða knattspyrnudeildar: Elvar Örn Þórisson, formaður Barna og unglingaráðs, Júlíus Örn Ásbjörnsson formaður meistaraflokksráðs kvenna og Björn Viðar Ásbjörnsson formaður meistaraflokksráðs karla.
Á fundinum hélt svo Sigurður Þór Reynisson erindi um afreksþjálfun knattspyrnudeildar og stöðu hennar í dag. Nú eru liðin tvö ár frá því afreksþjálfunin hófst í þeirri mynd sem hún er í dag en í kringum 25 iðkendur eru í hópnum.
Á fundinum var kynnt 9 mánaða fjárhagsuppgjör sem sýnir mikinn viðsnúning frá árinu 2022 til hins betra.
Þrír einstaklingar, þeir Arnar Þór Jónsson fráfarandi formaður knattspyrnudeilar Fylkis, Hrafnkell Helgason, fráfarandi formaður meistaraflokksráðs karla og Þorvaldur Árnason, meistaraflokksráði karla, voru heiðraðir sérstaklega í lok fundarins. Viðkomandi hafa allir starfað lengi fyrir Fylki og gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa að þessu sinni.
Efri röð frá vinstri; Haraldur Úlfarsson, Ragnar Páll Bjarnason, formaður og Valur Ragnarsson
Neðri röð frá vinstri; Stefanía Guðjónsdóttir og Hjördís Jóhannesdóttir
 Frá vinstri Þorvaldur Árnason, Arnar Þór Jónsson og Hrafnkell Helgason

Boðað hefur verið til kvennaverkfalls á kvennafrídaginn þriðjudaginn 24. október.

Á fjórða tug samtaka launafólks og kvennasamtaka standa að verkfallinu og hvetja konur til að leggja niður launuð og ólaunuð störf þennan dag.

Meginkröfurnar snúa að því að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt og að mat á virði kvennastarfa verði endurskoðað.

Íþróttafélagið Fylkir styður kvennaverkfallið og vegna þessa mun starfsemi félagsins raskast eitthvað þennan dag, mismikið eftir hópum.

Þjálfarar þeirra hópa sem hefðu átt æfingu þennan dag munu láta iðkendur vita hvernig morgundagurinn verður og hvort æfingin verði eða ekki.

Frístundavagn Fylkis mun ganga þennan dag.

Aðalfundur knattspyrnudeildar verður mánudaginn 30.október 2023 í samkomusal Fylkishallar.

Dagskrá:

Hefbundin aðalfundastörf samkvæmt reglugerð knattspyrnudeildar og lögum félagsins.

Önnur mál

Fyrir fundinum liggur ein reglugerðarbreyting en hún er á fyrstu málsgrein 5.gr. sem hljómar svona í dag

5.gr.     Aðalfundur knattspyrnudeildar

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Fylkis skal haldinn í október ár hvert, með heimild aðalstjórnar, skv. 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga fyrir Íþróttafélagið Fylki.  Sömu reglur gilda um boðun og dagskrá aðalfundar knattspyrnudeildar, sem um aðalfund félagsins.  Skal hann auglýstur með minnst 2 vikna fyrirvara í dagblaði.

 

Neðangreind breyting verður lögð fyrir fundinn til samþykktar

5.gr.     Aðalfundur knattspyrnudeildar

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Fylkis skal haldinn í október ár hvert, með heimild aðalstjórnar, skv. 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga fyrir Íþróttafélagið Fylki. Skal hann auglýstur með að minnsta kosti 2ja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins og/eða með öðrum rafrænum hætti. Hann telst lögmætur sé löglega til hans boðað.

 

Strákarnir okkar í 3.flokki karla gerðu sér lítið fyrir og urðu um liðna helgi Íslandsmeistarar C-liða eftir frábæran 2-1 sigur á Þór á Wurth vellinum fyrir framan fjölmarga áhorfendur.
 
Stákarnir áttu vægast sagt frábært sumar en þeir sigurðu alla sína leiki á Íslandsmótinu sem er algjörlega stórkoslegur árangur, 14 leikir – 14 sigrar og Íslandsmeistaratiltill.
 
Þjálfarar flokksins eru þeir Steinar Leó Gunnarsson, Kristján Gylfi Guðmundsson & Hrannar Leifsson.
 
Við óskum þessum flotta hópi til hamingju með titilinn og hlökkum til að fylgjast með þeim ná en meiri árangri á vellinum næstu árin !

 

Strákarnir okkar spila mikilvægan leik við ÍBV í úrslitakeppni Bestu deildar karla sunnudaginn 17.sept kl:17:00.

Síldarveislan okkar vinsæla verður haldinfyrir leik og er stuðningsmönnum Fylkisboðið í hana. Hefst hún kl:15:00 í samkomusal Fylkishallar.

Boðið verður upp á nokkrar tegundir af síld ásamt plokkfisk og meðlæti, kaldir drykkir verða til sölu.

Þeir sem mæta í síldarveisluna fá boðsmiða á völlinn í boði knattspyrnudeildar !

Síðustu daga hafa veðurspár fyrir Golfmót Fylkis nk föstudag ekki verið lofandi. Við höfum fylgst náið með og verið að vonast eftir því að úr spánum rættist eftir því sem nær drægi.

 

Nú er staðan hins vegar þannig að Veðurstofan er að spá suðvestan 13 – 17 m/s ásamt úrkomu fyrir Þorlákshöfn og nágrenni eftir hádegi á föstudag.

 

Í ljósi þessara aðstæðna neyðumst við því til að slá Golfmóti Fylkis á frest. Við munum klárlega taka upp þráðinn aftur með hækkandi sól á nýju ári.

 

Við þökkum fyrir góðar móttökur og áhugann fyrir þessum nýja viðburði í dagatali Fylkisfólks.

 

Með Fylkiskveðju,

„Golfnefnd Fylkis“

Það var okkur Fylkisfólki sannur heiður að bjóða fyrrum þjálfara Fylkis hjartanlega velkominn aftur á Fylkisvöll á leik Fylkis og HK í Bestu deild karla.
 
Martein Geirsson þjálfaði Fylkisliðið á árunum 1986 – 1991, samtals í sex ár og lengst allra þeirra sem þjálfað hafa meistaraflokk Fylkis í gegnum tíðina.
 
Við Fylkisfólk höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að margir frábærir þjálfarar hafa starfað fyrir Fylki við þjálfun meistaraflokksliðanna okkar í gegnum tíðina.
 
Án þess að á nokkurn þeirra sé hallað má með sanni segja að Marteinn Geirsson hafi skilað gríðarlega mikilvægu framlagi til Fylkis á árum áður.
 
Marteinn tók við Fylkisliðinu vorið 1986, í því sem þá hét 3ja deild og haustið 1988 var sæti í efstu deild tryggt í fyrsta sinn.
 
Við viljum þakka Marteini kærlega fyrir komuna á völlinn sem og hans frábæra starf sem hann vann með liðið á sínum tíma !
 
#viðerumÁrbær
Knattspyrnudeild Fylkis og góðgerðafélagið Gleðistjarnan skrifuðu í gær undir samstarfssamning um Fylkismótin sem haldin eru árlega og eru fyrir iðkendur í 8. – 5 flokki, og munu mótin heita Gleðistjörnumótin.
 
Gleðistjarnan er góðgerðarfélag sem stofnað hefur verið til minningar um Þuríði Örnu Óskarsdóttur sem lést þann 20. mars 2023 eftir rúmlega 18 ára baráttu við heilaæxli sem hún greindist með aðeins tveggja ára gömul.
 
Tilgangur félagsins er að halda uppi minningu Þuríðar með því að gleðja systkini langveikra barna með gleðigjöfum og viðburðum en fjölskylda Þuríðar þekkir það vel hversu mikilvægt það er að finna góðan stuðning samfélagsins á erfiðum tímum.
 
Það voru þau Elvar Örn Þórisson, formaður barna og unglingaráðs Fylkis og Áslaug Ósk Hinriksdóttir formaður Gleðistjörnunnar sem skrifuðu undir samningin í hálfleik á leik Fylkis og KR í meistaraflokki kvenna. Með þeim á myndinni eru þau Theodór Ingi Óskarsson, Hinrik Örn Óskarsson og Jóhanna Ósk Óskarsdóttir systkini Þuríðar, sem öll spila fótbolta með yngri flokkum Fylkis, ásamt stelpum úr yngri flokkum félagsins sem eru á leið á Símamótið um komandi helgi !
 
Við hjá Fylki erum stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að sjá spræka krakka taka þátt í Gleðistjörnumótinu 2023!