Spilað verður á Tekk vellinum í Árbænum næstu árin
Knattspyrnudeild Fylkis og Tekk húsgagnaverslun kynna með stolti útvíkkað samstarf sem meðal annars felur í sér að aðalvöllur Fylkis mun verða nefndur Tekk völlurinn næstu árin.
Tekk, sem hefur á undanförnum árum verið einn af aðalstyrktaraðilum Knattspyrnudeildar Fylkis, tekur nú að sér enn stærra hlutverk gagnvart Fylki en verið hefur.
Tekk var stofnað árið 1998 af bræðrunum Eyþóri og Finni Kolbeinssonum og eiginkonum þeirra, Elínu Maríu Sigurjónsdóttur og Telmu Birgisdóttur – fyrst undir nafninu Tekk Vöruhús. Núverandi eigendur Tekk eru hjónin Telma Birgisdóttir og Finnur Kolbeinsson. Finnur er uppalinn Árbæingur og lék á sínum tíma hátt í 300 leiki fyrir meistaraflokk Fylkis og var sigursæll fyrirliði Fylkis um margra ára skeið.
Ragnar Páll Bjarnason, formaður Knattspyrnudeildar Fylkis: „Við höfum átt frábært samstarf við Harald Leifsson og félaga hjá Würth á undanförnum árum sem við þökkum kærlega fyrir. Á sama tíma er það gríðarlega ánægjulegt að kynna enn víðtækara samstarf við Telmu og Finn hjá Tekk. Við erum sérlega stolt af því að þétta samstarfið við Árbæinga og Fylkisfólk eins og þau. Við leyfum okkur að taka þessu sem staðfestingu á því góða starfi sem fram fer á vegum Knattspyrnudeildar Fylkis.“
Telma Birgisdóttir, eigandi Tekk: „Hjartað í Árbæ, Selás, Ártúnsholti og Norðlingaholti slær með Fylki og það er ekki annað hægt en að hrífast með. Við bjóðum allt Fylkisfólk sérlega velkomið í verslun okkar í Skógarlindinni þar sem við heitum góðum móttökum.“
Finnur Kolbeinsson, eigandi Tekk: „Við hjá Tekk höfum í langan tíma stutt með mikilli gleði við starfsemi Knattspyrnudeildar Fylkis. Ég er alinn upp í Fylki og hér er okkur að gefast tækifæri til að styðja við öflugt og ábyrgt starf Fylkis fyrir hverfið ásamt því að vekja athygli allra landsmanna á Tekk og þeim fjölbreyttu vörum sem við hjá Tekk höfum upp á að bjóða.“

Myndir: Hulda Margrét. http://huldamargret.is