Evrópumeistaramót Smáþjóða í karate fór fram 1.- 3. nóvember í Monaco. Fylkisfólkið Karen og Sammi voru meðal landsliðshópsins. Bæði stóðu sig rosalega vel eins og svo oft áður. Sammi fékk brons í male kumite -67 kg.
Karen fékk silfur í female kumite -50kg og varð Smáþjóðameistari í U21 kumite female -50kg.
Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Aðalfundur knattspyrnudeildar fór fram miðvikudaginn 30.október í Fylkishöll.  Kosin var ný stjórn deildarinnar ásamt því að skipað var í ráð fyrir komandi tímabil.  Einnig kynntu sig nýjir þjálfarar meistaraflokks kvenna og karla, þeir Bjarni Þórður Halldórsson og Árni Freyr Guðnason fyrir fundargestum og fóru yfir sínar áherslur.  Yfirþjálfarar yngri flokka, þeir Sigurður Þór Reynisson og Steinar Leó Gunnarsson fóru svo að lokum yfir stefnuna í þjálfun yngri flokka.

Stjórn knattspyrnudeildar

Ragnar Páll Bjarnason formaður

Edda Sif Sigurðardóttir

Haraldur Úlfarsson

Hjördís Jóhannesdóttir

Valur Ragnarsson

 

Stjórn BUR

Elvar Örn Þórisson formaður

Sigurlaug Þóra Kristjánsdóttir varaformaður

Ágústa Ósk Einarsdóttir

Erna Bryndís Einarsdóttir

Ólafur Thorarensen

 

Stjórn MKV

Atli Már Agnarsson formaður

Kristófer Númi Hlynsson varaformaður

Ámundi Halldórsson

Jónína Guðrún Reynisdóttir

Kamilla Rún Ólafsdóttir

Steinunn Jónsdóttir

Sigurður Magnússon

Stefanía Guðjónsdóttir

 

Stjórn MKA

Björn Viðar Ásbjörnsson formaður

Árni Leó Þorðarson

Jón Þór Júlíusson

Sigfús Örn Guðmundsson

Þorsteinn Lár Ragnarsson

 

Heiðruð voru þau Júlíus Örn Ásbjörnsson og Stefania Guðjónsdóttir fyrir vel unnin störf

 

Stjórn deildarinnar.  Á myndina vantar Harald Úlfarsson

Árleg síldarveisla Fylkis fyrir síðasta heimaleikinn hjá strákunum 20. október var vel sótt og gekk mjög vel fyrir sig. Við þökkum þeim sem mættu. Okkar menn léku svo síðasta leik tímabilsins við skrautlegar aðstæður á Ísafirði sl. laugardag, þar sem öflug frammistaða liðsheildarinnar skilaði öruggum 1-3 sigri.

Þar með lauk formlega tímabilinu 2024 og eins og áður hefur komið fram er nýtt starfsár nú þegar hafið og undirbúningur fyrir komandi tímabil byrjar af krafti.

Næstkomandi miðvikudagskvöld er boðað til fundar þar sem nýráðnir þjálfarar meistaraflokka Fylkis, þeir Árni Freyr Guðnason og Bjarni Þórður Halldórsson kynna sig, ræða næstu skref og svara spurningum úr sal. Sigurður Þór Reynisson, yfirþjálfari knattspynudeildar og Steinar Leó Gunnarsson, yfirþjálfari yngstu flokka verða einnig viðstaddir og eru reiðubúnir til að grípa spurningar úr sal eins og þarf.

Staður: Fylkishöll.

Stund: Kl 19:30, miðvikudaginn 30. október.

Dagskrá fundarins:

  • Hefðbundin störf aðalfundar Knattspyrnudeildar Fylkis. Rifjað er upp að skv. reglugerð knattspyrnudeildar og lögum félagsins er megin tilgangur fundarins að kjósa stjórn deildarinnar og fundi er síðan frestað fram á vormánuði næsta árs. Fimm einstaklingar hafa tilkynnt um framboð sitt til stjórnar: Ragnar Páll Bjarnason (formaður), Edda Sif Sigurðardóttir, Haraldur Úlfarsson, Hjördís Jóhannesdóttir og Valur Ragnarsson.
  • Bjarni Þórður Halldórsson, þjálfari meistaraflokks kvenna
  • Árni Freyr Guðnason, þjálfari meistaraflokks karla

Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar á meðan fundi stendur og áætlaður fundartími er um ein klukkstund.

Við skorum á allt Fylkisfólk að mæta á fundinn, hitta þjálfarana okkar og láta í sér heyra. Nýtt starfsár er hafið og við ætlum að bretta upp ermar og halda áfram starfi Knattspynudeildar Fylkis af fullum krafti.

Munum: GLEÐI, VIRÐING, METNAÐUR!

Áfram Fylkir,

Stjórn Knattspyrnudeildar

 

Árni Freyr ráðinn þjálfari meistaraflokks karla, ásamt Birni Viðari Ásbjörnssyni formanni meistaraflokksráðs og Ragnari Páli Bjarnasyni formanni knattspyrnudeildar

Knattspyrnudeild Fylkis hefur ráðið Árna Frey Guðnason sem þjálfara karlaliðs Fylkis til næstu þriggja ára. Árni Freyr, sem mun hefja störf í næsta mánuði, er Fylkisfólki vel kunnur eftir að hafa leikið með Fylkisliðinu við góðan orðstír keppnistímabilin 2012 og 2013. Alls lék Árni Freyr tæpa 100 leiki í tveimur efstu deildum knattspyrnunnar á Íslandi á sínum tíma og í þeim leikjum skoraði hann alls 38 mörk.

Árni sem er 38 ára gamall hefur undanfarin ár verið þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR og náð þar mjög eftirtektarverðum árangri. Haustið 2023 ávann ÍR sér keppnisrétt í Lengjudeildinni. ÍR liðið endaði í fimmta sæti Lengjudeildarinnar núna í sumar og ávann sér rétt til þátttöku í úrslitakeppni um laust sæti í Bestu deildinni þar sem liðið féll úr leik fyrir liði Keflavíkur. Áður en Árni tók að sér þjálfun hjá ÍR hafði hann um árabil verið yfirþjálfari yngri flokka hjá uppeldisfélagi sínu, FH. 

Björn Viðar Ásbjörnssson, formaður meistarflokksráðs karla hjá Fylki: Við bindum miklar væntingar til starfa Árna Freys fyrir Fylki. Það er engin launung að niðurstaða þess tímabils sem senn er lokið er okkur Fylkisfólki mikil vonbrigði en á sama tíma erum við staðráðin í að snúa bökum saman og byggja upp öflugt Fylkislið á þeim góða grunni sem er til staðar í Árbænum. Við munum draga lærdóm af því sem liðið er og horfum spennt til framtíðar. 

Árni Freyr Guðnason, nýráðinn þjálfari Fylkis: Það er mikill heiður fyrir mig að snúa aftur til Fylkis og að fá nú tækifæri til að þjálfa Fylkisliðið. Mitt mat er að það sé mjög mikið spunnið í liðið og með vinnusemi og metnað að leiðarljósi er ég sannfærður um að við munum skila góðri frammistöðu í framtíðinni. Hér í Árbænum eru aðstæður til fyrirmyndar og ég hlakka til að hefja störf fyrir Fylki. 

 Knattspyrnudeild Fylkis þakkar Knattspyrnudeild ÍR fyrir fagmannleg samskipti í tengslum við þessa ráðningu.

Árni Freyr ráðinn þjálfari meistaraflokks karla, ásamt Birni Viðari Ásbjörnssyni formanni meistaraflokksráðs og Ragnari Páli Bjarnasyni formanni knattspyrnudeildar

Á myndinni, frá vinstri, eru Björn Viðar Ásbjörnsson formaður meistaraflokksráðs karla, Árni Freyr Guðnason og Ragnar Páll Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar.

Fylkir hefur gert samning við Bjarna Þórð Halldórsson um að taka við starfi aðalþjálfara kvennaliðs Fylkis.

Bjarni Þórður er Fylkisfólki vel kunnur en hann á að baki fjölda leikja með félaginu ásamt því að hafa komið að þjálfun allra flokka til margra ára, nú síðast sem markmannsþjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Bjarni Þórður er auk þess Árbæingur og Fylkis maður alveg í gegn.

Við hjá félaginu höfum miklar væntingar til samstarfsins við Bjarna Þórð og hlökkum til að vinna með honum að áframhaldandi framgangi kvennaknattspyrnunnar hjá Fylki.

Um leið þakkar Fylkir Gunnari Magnúsi Jónssyni fyrir gott starf hjá Fylki í þau tvö ár sem hann var hjá okkur sem þjálfari meistaraflokks kvenna. Við þökkum honum fyrir hans framlag til Fylkis og óskum honum alls hins besta í hans næstu verkefnum.

#viðerumÁrbær

Miðvikudaginn 30.október 2024 kl. 19:30 er boðað til aðalfundar knattspyrnudeildar Fylkis í samkomusal Fylkishallar.

Dagskrá:

Hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt reglugerð knattspyrnudeildar og lögum félagsins.

Önnur mál

 

Stjórn knattspyrnudeildar Fylkis

Guðmar Gauti Sævarsson hefur verið valinn í lokahóp U-17 ára landsliðs karla sem tekur þátt í undankeppni EM 2025.
 
Undankeppnin fer fram hér á Íslandi dagana 25.10 – 5.11.
 
Guðmar er afar efnilegur leikmaður sem hefur átt fast sæti í landsliðinu undanfarin ár. Einnig er hann algjör lykilmaður í 2.flokki félagsins ásamt því að æfa og spila með meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur.
 
Við óskum Guðmari innilega til hamingju með valið!


 
#viðerumÁrbær
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Fylki mun láta af störfum hjá félaginu þegar samningur hans rennur út í lok þessa mánaðar.
 
Ragnar Páll Bjarnason, formaður Knattspyrnudeildar Fylkis:
,,Rúnar Páll er búinn að vinna afar gott starf hjá Fylki þau rúmu þrjú ár sem hann hefur verið við stjórnvölinn hjá okkur. Við kveðjum Rúnar Pál Sigmundsson með þökkum fyrir allt hans framlag til Fylkis um leið og við óskum honum alls hins besta í næstu verkefnum sem hann mun taka að sér.”
 
Rúnar Páll Sigmundsson:
,,Mér hefur liðið virkilega vel hjá Fylki allan minn tíma hjá félaginu. Ég vil þakka starfsfólki, leikmönnum, stjórn, meistaraflokksráði sem og stuðningsfólki Fylkis fyrir samstarfið og stuðninginn við Fylkisliðið og mín störf á undanförnum árum. Fylkir er frábært félag með umgjörð og aðstæður sem eru til mikillar fyrirmyndar.”
 
#viðerumÁrbær
📸Hafliði Breiðfjörð
Næst er það Krókurinn – rútuferð í boði.
 
Það var frábær stemmning í stúkunni á Samsung vellinum í frábærum sigri okkar stúlkna og þökkum við öllum þeim sem mættu og studdu stelpurnar til sigurs.
 
Næsti úrslitaleikur hjá stelpunum er laugardaginn 7. September kl: 14:00 þegar þær mæta Tindastól á Sauðárkróki. Með sigri kemst liðið upp úr fallsæti þegar einn leikur er eftir.
 
Boðið verður upp á rútuferð norður og til baka og kostar sætið aðeins 2500 kr. Lagt verður af stað klukkan 09:00 frá Fylkisheimilinu. Áætluð heimkoma er milli 19:00 og 20:00.
 
Skráning í ferðina er hér að neðan eða með tölvupósti á juliusorn@outlook.com.
 
Theodór Ingi og Stefán Gísli valdir í lokahóp U-19! 🇮🇸
Þórhallur Siggeirsson, þjálfari U19 karla, hefur valið þá Theodór Inga og Stefán Gísla í lokahóp U-19 ára landsliðs karla sem spilar á æfingamót í Slóveníu 3.-11.september næstkomandi.
Báðir eru þeir lykilleikmenn í 2.flokki ásamt því að vera með mikilvæg hlutverk í meistaraflokki félagsins.
Við fögnum því að okkar frábæra uppeldisstarf sé að skila okkar efnilegu leikmönnum í landsliðsverkefni og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni!
Til hamingju Teddi og Stebbi