Stuðningsyfirlýsing Knattspyrnudeildar Fylkis við Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi stjórnarmann KSÍ
Stuðningsyfirlýsing Knattspyrnudeildar Fylkis við Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi stjórnarmann KSÍ
Í framhaldi af ársþingi KSÍ sem haldið var 26. febrúar síðastliðinn og þeirri umræðu sem átti sér stað á þinginu sjálfu, auk umræðu í aðdraganda þingsins sem teygir sig aftur til haustsins 2021, um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, vill Knattspyrnudeild Fylkis koma eftirfarandi á framfæri:
Það var á sínum tíma gæfa fyrir Knattspyrnudeild Fylkis og félagið í heild sinni þegar Ásgeir Ágeirsson gaf færi á sér til starfa fyrir deildina, fyrst á vettvangi Barna- og unglingaráðs, síðar sem formaður meistaraflokksráðs karla og svo um margra ára skeið sem formaður deildarinnar ásamt sæti í aðalstjórn.
Auk þessara starfa gaf Ásgeir síðar færi á sér til trúnaðarstarfa fyrir knattspyrnuna á Íslandi, bæði sem formaður ÍTF (Íslensks Toppfótbolta) og víðar. Frá árinu 2019 sat Ásgeir í stjórn KSÍ þar til hann sagði sig úr stjórninni í lok ágúst 2021 eftir að ÍTF, formenn aðildarfélaga ÍTF auk nokkurra félaga úr neðri deildum höfðu hvatt stjórn og framkvæmdastjóra KSÍ til að axla ábyrgð.
Okkur þykir leitt að sú atburðarrás sem fór af stað í kjölfarið hafi beinst persónulega gegn Ásgeiri og öðrum almennum stjórnarmönnum KSÍ þar sem þeim var ætlað að hafa vitneskju um atburði sem þeir höfðu ekki. Í því samhengi er sérstaklega bent á skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ sem gerði úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. Lokaskýrsla úttektarnefndarinnar var kynnt 7. desember 2021 þar sem m.a. kom skýrt fram að almennir stjórnarmenn KSÍ hafi ekki vitað um þau mál sem til umfjöllunar voru í skýrslunni og stjórn KSÍ því hreinsuð af þeim ásökunum sem á hana voru bornar (Kastljós 9. desember 2021).
Öll störf sem Ásgeir hefur tekið að sér á vettvangi Fylkis í gegnum tíðina hefur hann innt af hendi af miklum dugnaði, heilindum og ósérhlífni. Við erum viss um að það sama gildir um allt hans framlag til íslenskrar knattspyrnu, þ.m.t. störf hans á vettvangi KSÍ. Við viljum taka skýrt fram að Ásgeir nýtur fulls og óskorðaðs trausts Knattspyrnudeildar Fylkis og það er von okkar að íslensk knattspyrna fái áfram notið hans öflugu starfskrafta í framtíðinni.
Knattspyrnudeild Fylkis vill að lokum taka það fram að við höfnum öllu ofbeldi í hvaða mynd sem það er og að við styðjum brotaþola.
Virðingarfyllst,
Fh. Knattspyrnudeildar Fylkis
Arnar Þór Jónsson, formaður