,

Árbæjarins besta… er samfélagið okkar

Árbæjarhverfið er náttúruperla í borginni, í hverfinu okkar sem teygir sig frá Ártúnsholtinu, yfir Selásinn og upp fyrir Norðlingaholtið. Í hugum okkar íbúanna hér, hvort sem við erum hér borin og barnfædd eða aðflutt síðar meir, þá er það samt, fyrir sennilega flest okkar, samfélagið sem dregur fólk hingað. Við hittumst á förnum vegi, spjöllum um veðrið , fuglalífið í dalnum og íþróttirnar okkar. Erum þá jafnan í einhverri appelsínugulri flík. Hér er einhver umlykjandi bæjarbragur. Hér er samstaða og samkennd með því sem við eigum saman.

Við erum samt ekkert of rík af samkomustöðum í hverfinu. Fylkisvöllurinn er staðurinn þar sem sennilega flestir Árbæingar koma reglulega saman, hitta gamla og nýja nágranna. Eignast nýja vini. Hér er það Fylkisvöllurinn, beint í miðju hverfinu, þar sem Árbæingar á öllum aldri hafa leikið sér, hópast saman og stundað íþróttir af krafti um áratugaskeið, með sterkri samstöðu sem einkennir Árbæinga.

Við búum svo vel að eiga nú tvö lið í efstu deild fótboltans og það færir félaginu okkar umtal, styrk, vöxt og möguleika á að gera betur sem stór félagsmiðstöð fyrir samstillta samfélagið okkar allra í 110 Reykjavík.

Það er mikilvægt að við tökum saman þátt í að halda uppi lífvænlegu og öflugu starfi, þó við höfum kannski mismunandi mikinn áhuga á fótbolta. Að hitta sitt fólk, hvetja sín lið, strákana okkar og stelpurnar í Bestu deild, sem flest eiga það sameiginlegt að vera uppalin hérna í hverfinu. Þetta er okkar fólk, sem hljóp hér um sem börn vina okkar fyrir ekki svo löngu.

Það er stefna Fylkis að byggja á ungviðinu okkar því það tryggir öflugt barna- og unglingastarf og það höfum við sannarlega gert og gerum betur en flest önnur félög í því. Og þetta ætlum við að gera áfram.

Knattspyrnudeild Fylkis hvetur því alla Árbæinga til að halda áfram að koma saman, halda áfram að hittast á vellinum á næsta leik, halda áfram að mæta í appelsínugulu og hvetja okkar fólk áfram. Ekki gefast upp þó á móti blási, því þetta er þess virði að berjast fyrir. Það erum við, þið, samfélagið í Árbænum, sem erum Árbæjarins besta.

Áfram appelsínugult, áfram Fylkir. Við erum Árbær.

Gleði – Virðing – Metnaður

Stjórn Knattspyrnudeildar Fylkis