,

Æfingar hefjast aftur 18. nóvember

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis sem fela í sér varfærnar tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum. Breytingarnar taka gildi 18. nóvember. Þær eru helstar að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilt á ný. Í framhaldsskólum verða fjöldamörk aukin í 25. Hægt verður að hefja ýmsa þjónustustarfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nándar.  Gert er ráð fyrir að hægt verði að draga enn frekar úr samkomutakmörkunum í byrjun desember.

Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.

Í skólastarfi og íþróttastarfi á framhaldsskólastigi verður heimilt að vera með að hámarki 25 í hverju rými í stað 10 áður en ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð.

Breytingar á reglugerðum um takmarkanir á samkomum og skólahaldi vegna farsóttar taka gildi 18. nóvember. Gildistími reglugerðanna er til og með 1. desember næstkomandi.

Nánari upplýsingar um æfingarnar munu þjálfarar senda út til sinna iðkenda fyrir 18.nóvember.