Fylkir fagnar tillögu Björns Gíslasonar
Forsvarsmenn Fylkis, Ármanns og KR fagna tillögu Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lögð verður fyrir borgarstjórn þriðjudaginn 18. október, en hún snýr að stuðningi borgarinnar við starf þessara félaga á sviði rafíþrótta. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða sem snertir fjölmörg börn og unglinga sem eru iðkendur rafíþróttadeilda félaganna.
Skipulag rafíþrótta gengur út á að því að bjóða upp á vel skipulagðar og gefandi æfingar fyrir ungmenni með það að markmiði að þjálfa iðkendur í að eiga heilbrigt samband við tölvuleikjaiðkun.
Í starfinu er iðkendum kennt að þekkja tölvurnar sem verkfæri en ekki verkstjóra, að efla félagsfærni þeirra og reyna að fyrirbyggja félagslega einangrun þeirra sem spila bara ein heima hjá sér. Einnig er lögð mikil áhersla á hreyfingu og fræðslu.
Skipulag íþróttafélaga hentar mjög vel fyrir starfsemi rafíþrótta og hefur verið mikil ánægja meðal iðkenda og forráðamanna með starfið. Margir einstaklingar sem ekki voru þátttakendur áður í skipulögðu starfi eru núna virkir þátttakendur sem eru frábærar fréttir.
Hörður Guðjónsson framkvæmdastjóri Fylkis
Jón Þór Ólason framkvæmdastjóri Ármanns
Bjarni Guðjónsson framkvæmdastjóri KR