, ,

Forsetahjónin kynna sér verkefnið „Betri borgarar“

„Það var okkur í Fylki sönn ánægja og heiður að taka á móti forsetahjónunum fimmtudaginn 23. nóvember sl. en forsetinn er auðvitað þekktur fyrir áhuga sinn á Íþróttum.

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Jean Reid, forsetafrú, heimsóttu Íþróttafélagið Fylki  sl. fimmtudag í þeirri viðleitni að kynna sér sérstaklega lýðheilsuverkefnið  „Betri borgarar“ – en heimsókn forsetahjónanna var partur af dagskrá þeirra í opinberri heimsókn þeirra til Reykjavíkur.

Verkefnið, sem snýst um leikfimi fyrir eldra fólk, 65 ára og eldri, undir leiðsögn þjálfara, hefur slegið í gegn og nær nú langt út fyrir raðir Árbæinga.

Námskeiðið sækja 150 eldri borgarar tvisvar í viku

Verkefnið hefur sprengt utan af sér og m.a. hefur eldra fólk, sem búsett sé í öðrum borgarhlutum farið að sækja námskeiðið.

„Frá því að Fylkir, starfsfólk þess og fimleikadeild félagsins, sem á raunar allan heiðurinn að vexti og viðgangi Betri borgara, hóf að bjóða upp á námskeiðið hefur það vaxið mjög ört. Í dag sækja námskeiðið um 150 manns tvisvar í viku,.

Markmiðið m.a. að rjúfa félagslega einangrun

 

Yfirmarkmið lýðheilsuverkefnisins Betri borgara er tvíþætt: „Annars vegar að gera eldra fólki kleift, með styrktaræfingum, að búa lengur heima hjá sér en ella og hins vegar að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps, sem oft vill verða þegar fólk lýkur starfsferli sínum.

 

Tónlist frá áratugunum 1960 til 80

 

Fólkið sem sækir námskeiðið hefur bæði gagn og gaman af. „Í tímunum er spiluð tónlist frá áratugunum 1960 til 80. Þá er unnið með svokallaða stöðvaþjálfun sem byggð er upp á styrktar- og jafnvægisæfingum, auk þess sem unnið er með minnisæfingar. Jafnframt er eftir hverja æfingu boðið til kaffisamsætis með það að markmiði að efla félagsleg tengsl eldra fólks.

 

„Fylkir hvetur áhugasama betri borgara til að setja sig í samband við Fylki hafi þeir áhuga á að taka þátt en enn er hægt að bæta nokkrum í hópinn.