,

Öðruvísi tímar hjá Fylki

Kæru félagsmenn, þetta eru fordæmalausir tímar sem við upplifum þessa dagana. 

Starfsemi félagsins er með allt öðrum hætti en vanalega og það sama á við um samfélagið allt. Allir hjá félaginu hafa lagt sitt af mörkum til að aðlaga starfið breyttum aðstæðum og endurhugsa starfsemina. 

Það sem skiptir mestu máli er að við förum öll eftir tilmælum yfirvalda svo útbreiðslan Covid -19 verði sem minnst og sem fæstir veikist. Þetta mun takast ef við stöndum öll saman.

Hvað varðar starfsemi félagsins þá eru Fylkishöllin og Fylkisselið lokuð fyrir allri íþróttastarfsemi og gervigrasvellirnir líka. Frístundaheimili Árbæjarskóla hefur reyndar haldið úti sinni starfsemi í Fylkishöll þá daga sem samkomubannið hefur verið í gildi og fylgt öllum þeim tilmælum sem gefin hafa verið út. Starfsfólk Fylkis hefur skipt sér upp í tvo hópa og mæta í vinnu annan hvern dag og á móti er unnið heima. Það gerum við til þess að ef einn veikist þá þurfa ekki allir að fara í sóttkví.

Þetta hefur haft mikil áhrif á okkar starfsemi eins og allra annara. Hefðbundnar æfingar hafa fallið niður og það sama á við um leiki og mót. Allar skólaíþróttir hafa fallið niður þó að starfsemi skólanna sé haldið gangandi. Ásamt íþróttastarfinu hefur allt félagsstarf verið fellt niður hjá félaginu. Stjórnir og ráð félagsins hafa samt haldið áfram sínu starfi og þá oft nýtt sér tæknina fyrir fundi og fleira. Hvað varðar aðra starfsemi hjá okkur þá hefur líkamræktarstöð World Class verið lokað meðan þetta ástand varir.

Þrátt fyrir stöðuna þá hafa þjálfarar í öllum deildum félagsins verði í góðu sambandi við sína iðkendur.  Iðkendur fá þá meðal annars sendar til sín heimaæfingar og verkefni til að leysa. Í ástandi sem þessu þá gefst tími til að huga jafnvel að öðrum þáttum þjálfunar. Við hvetjum bæði iðkendur og foreldra til að vera dugleg að taka æfingar heima og fara út reglulega. Við verðum að finna leiðir til að halda okkur í formi líkamlega og ekki síst andlega. Þar er hreyfingin besta meðalið.  Munum svo að heyra reglulega í ömmu og afa en það er á svona stundum sem við verðum að hugsa vel um okkar nánustu.

Að lokum vil ég þakka öllum iðkendum og forráðamönnum fyrir góðan skilning á þessu ástandi og þrátt fyrir mikla óvissu þá er eitt öruggt að þetta mun taka enda.

Hlökkum svo til að sjá ykkur þegar allt fer á stað aftur.

Áfram Fylkir

Hörður Guðjónsson framkvæmdarstjóri Fylkis