,

Ágætu forráðamenn iðkenda hjá Fylki.

Ágætu forráðamenn iðkenda hjá Fylki.

Keppnis- og rekstrarárið 2019 er senn á enda. Við vonum að það hafi bæði verið gleðilegt og viðburðaríkt fyrir iðkendur knattspyrnudeildar félagsins.

Þó að ekki hafi unnist margir titlar til félagsins á árinu sem er að líða þá hefur mörgum af iðkendum deildarinnar hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir iðkun sína. Þegar það gerist fyllumst við sem stöndum að félaginu stolti, bæði fyrir hönd iðkandans og foreldra hans. Það eru laun okkar sjálfboðaliða sem sjá um að halda utan um fjáraflanir og annan rekstur deildarinnar.

Við fögnum einnig hverjum þeim iðkenda sem heldur áfram að æfa með félaginu og viljum hvetja þá sem hellast úr fótboltanum að reyna finna sér annan vettvang innan félagsins. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að kveðja unga leikmenn, þá sérstaklega þá sem ganga upp úr 2. flokk á hverju ári þar sem ekki er pláss fyrir alla iðkendur í eina meistaraflokknum, af hvoru kyni fyrir sig, sem leyft er að senda til keppni. Þessari kerfisvillu hjá KSÍ munum við berjast gegn. Þannig sköpum við vettvang fyrir iðkandann, svo lengi sem hann vill taka þátt, óháð getu, innan félagsis.

Margar fjáraflanir deildarinnar hafa dottið úr skaftinu á undanförnum árum, eins og jólatrjáa- og flugeldasala (erum nú í samstarfi með Hjálparsveit Skáta). Þá hafa einnig nokkrir af helstu styrktaraðilum deildarinnar sagt upp samningum við okkur á árinu og varð því hálfgert tekjufall á liðnu ári hjá deildinni. Það heggur skörð í reksturinn og hefur fráfarandi stjórn og sú nýja sem við tölum fyrir, reynt að fylla upp í skörðin með nýjum fjáröflunum, s.l. sumar og nú í lok árs.

Við viljum einnig minna forráðamenn á Styrktarsjóð Indriða heitins Einarssonar (aðgengilegur á www.fylkir.is) þar sem hægt er að sækja um aðstoð við greiðslu æfingagjalda.

Jólabasar Fylkis verður haldinn helgina 6.-7. desember nk. Höfum við undanfarið auglýst eftir ýmis konar söluaðilum sem gætu haft áhuga á að koma að sölu á varningi á basarnum og hvetjum við foreldraráð eða bara einstaka foreldra til að panta bás/borð. Sjá nánari upplýsingar í auglýsingum á heimasíðu og Fésabókarsíðu félagsins.

Við opnun markaðarins föstudagskvöldið 6. desember kl. 20.30 mun stjórn deildarinnar bjóða gestum og gangandi upp á jólaglögg og piparkökur og heiðra nokkra iðkendur deildarinnar sem hafa náð merkum áfanga á sínum ferli auk þess sem verðlaun verða veitt til leikmanna meistaraflokka félagsins vegna árangurs sem náðist sl. sumar, en m.a. verða bestu og efnilegustu leikmenn liðanna heiðraðir. Hvetjum við sem flesta til að koma á opnunina, sem og heimsækja basarinn yfir helgina alla, en veitingasala verður á meðan markaðurinn er opinn.

Um miðjan desember setjum við á stað „Nýárshappadrætti Fylkis“ þar sem mikill metnaður hefur verið settur í vinningaskrána og munu allir iðkendur félagsins, meistara- og yngri flokkar, fá tækifæri til að selja miða gegn sölulaunum sem rennur til þátttöku- og ferðakostnaðar á hin ýmsu mót. Hagnaður af happadrættinu rennur allur til reksturs knattspyrnudeildar.

Undanfarin 12 ár hefur félagið boðið upp á SKÖTUVEISLU í Fylkishöll á Þorláksmessu og hefur það notið sívaxandi vinsælda. Í ár verður skötuveislan haldin í tvo daga, þ.e. sunnudaginn 22. desember og mánudaginn 23. desember, frá kl. 11:30 – 14:00. Hægt er að panta borð með því að senda tölvupóst á netföngin haffisteins@fylkir.is eða sigrun@ishamrar.is eða hringja í síma 897-9295 (Haffi) eða824-0403 (Sigrún). Við hvetjum alla skötuelskendur til að koma og njóta. Hér eru fagmenn að verki!

Flugeldabingó verður haldið í fyrsta skipti sunnudaginn 29. desember nk. í Fylkishöll. Þar munu leikmenn meistaraflokka félagsins sjá um að draga tölurnar og selja veitingar. Vinningarnir eru flugeldar frá Hjálparsveit skáta og hvetjum við unga sem aldna til þess að mæta og freista gæfunnar í lok árs. Gott ef að jólasveinninn kíki ekki við!! Allur ágóði rennur til æfingaferða flokkanna sem fyrirhugaðar eru í vor.

Í lok árs, eða 31. desember nkr. kl. 12, mun aðalstjórn félagsins krýna Fylkiskarl og -konu félagsins í kaffisamsæti í hátíðarsal Fylkishallar. Þar munu einnig nokkrir dyggir félagsmenn fá viðurkenningar fyrir störf sín fyrir félagið. Eru allir félagsmenn hvattir til þess að mæta.

Á nýju ári bindum við miklar vonir við nýja yfirþjálfara yngri flokka og leggjum nú sem fyrr áherslu á að vera með bestu mögulegu þjálfara sem völ er á í þjónustu fyrir iðkendur deildarinnar. Einnig leggjum við ríka áherslu á góða markmanns- og styrktarþjálfara. Þá er félagið margverðlaunað fyrir uppeldi á dómurum og mun það uppeldi halda áfram, en það fer víst enginn leikur fram án dómara. Nýtt þjálfarteymi hefur hafið störf hjá meistaraflokki karla sem skipað er þremur fyrrum landsliðs- og atvinnumönnum, sem allir hafa gengið þann veg sem yngri iðkendur eru að ganga í dag og hafa fullan skilning á þeirra draumum og markmiðum. Þá hefur Margrét Magnúsdóttir, nýr yfirþjálfari yngri flokka kvenna hjá félaginu, komið inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna auk þess sem Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna frá upphafi, hefur tekið við styrktarþjálfun hjá flokknum. Er það von okkar að þjálfarateymi meistaraflokkanna verði duglegir að gefa af sér til yngri iðkenda og annarra þjálfara félagsins.

Að lokum minnum við á Herra- og kvennakvöld félagsins sem haldin verða á nýju ár. Herrakvöld félagsins verður haldið föstudaginn 24. janúar 2020 og þá verður Kvennakvöld félagsins haldið laugardaginn 8. febrúar 2020.

Síðast en ekki síst óskum við í stjórn knattpyrnudeildar öllum iðkendum, foreldrum og félagsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Megi árið 2020 verða skemmtilegasta ár allra tíma 

Fylkir er best! Við erum best!

Fyrir hönd stjórnar knattpsyrnudeildar Fylkis
Kjartan Danielsson formaður
Stefanía Guðjónsdóttir varaformaður
Arnar Þór Jónsson gjaldkeri
Július Ásbjörnsson ritari
Ragnar Páll Bjarnason meðstjórnandi
Kolbrún Arnardóttir Mfl ráð kvenna
Gauti Guðmundsson BUR
Hrafnkell Helgason Mfl ráð karla