Fylkir 54 ára í dag
Íþróttafélagið Fylkir er 54 ára í dag 28.maí 2021 en félagið var stofnað árið 1967. Fylkir ber aldurinn mjög vel og er í mjög góðu formi eins og góðu íþróttafólki sæmir. Í dag eru í kringum 1500 iðkendur sem iðka sína íþrótt hjá okkur í sex íþróttagreinum og svo mun sú sjöunda bætast við í sumar en það er körfubolti en hann er að fara af stað aftur eftir nokkurra ára hlé. Nú er sumarið komið og það styttist í sumarstarf félagsins sem hefur sjaldan verið eins fjölbreytt og skemmtilegt. Allar frekari upplýsingar um það má nálgast á heimasíðu félagsins. Það hefur alltaf verið mikill áhugi og samstaða með félaginu innan okkar hverfis og upplifum við okkur oft sem þorp úti á landi. Það hefur sýnt sig að margir gamlir íbúar árbæjarhverfis halda tryggð við félagið þó að viðkomandi búi þar ekki lengur og eru alltaf tilbúin að leggja okkur lið ef þess þarf og fyrir það erum við ævinlega þakklát. Það gerist ekki af sjálfum sér að félag eins og okkar sé jafn stórt og öflugt og raun ber vitni. Þeir frumkvöðlar sem fóru af stað fyrir rúmum fimmtíu árum og stofnuðu félagið eiga stærstan þátt í þessari sögu og svo allir þeir sjálfboðaliðar sem komið hafa að starfinu á síðustu árum. Viljum við nota tækifærið og þakka öllum þeim kærlega fyrir þeirra framlag. Að lokum óskum við öllu Fylkisfólki nær og fjær til hamingju með daginn og hlökkum til næstu ára með ykkur. Áfram Fylkir !!