Fylkir semur við Mána Austamann
Knattspyrnudeild Fylkis hefur samið við Mána Austmann Hilmarsson og kemur hann til félagsins frá Fjölni.
Máni, sem er fæddur 1998, kemur með mikla reynslu í framlínu Fylkis. Hann var m.a. markahæsti leikmaður Fjölnis í Lengjudeildinni á síðasta tímabili með 14 mörk í deild og bikar. Máni hóf meistaraflokksferil sinn hjá Stjörnunni og fór þaðan til unglingaliðs FCK í Kaupmannahöfn en hann hefur m.a. leikið með FH, Leikni, HK og ÍR. Samtals á Máni 193 leiki í meistaraflokki hér á landi og hefur skorað í þeim 41 mark.
Björn Viðar Ásbjörnsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis:
„Máni er öflug viðbót við leikmannahóp Fylkis og við reiknum með honum í hóp 18. júlí á móti Njarðvík, eftir að leikmannaglugginn opnar. Máni er öflugur sóknarmaður sem hefur fyrir löngu sannað sig í þessari deild og það styrkir hópinn að fá hann með okkur í baráttuna um að tryggja okkur aftur upp í efstu deild.“
,,Ég hlakka mikið til að komast aftur á fullt í deildinni. Fylkir er með mjög sterkan leikmannahóp og skemmtilega blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við þrautreynda eldri leikmenn og spennandi þjálfarateymi. Það er sett krafa á liðið að gera alvöru atlögu að því að fara beint upp aftur eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni í fyrra og ég held að ég eigi eftir að geta lagt mitt af mörkum í þeirri baráttu.“ var haft eftir Mána við undirskrift
Við bjóðum Mána Austmann hjartanlega velkominn í Árbæinn og hlökkum við til að sjá hann skína í appelsínugulu í sumar!