,

Mjólkurbikarmót Fylkis heppnaðist frábærlega

Fylkissvæðið, og raunar allt Árbæjarhverfið, iðaði af mannlífi um helgina 16. og 17. október þegar Barna- og unglingaráð Knattspyrnudeildar Fylkis (BUR) stóð fyrir Mjólkurbikarmóti yngri flokka. Alls tóku meira en 200 lið iðkenda úr 7. flokkum og 6. flokkum drengja og stúlkna þátt. Spilað var á 14 völlum þar sem við nýttum aðalvöllinn og grasvöllinn til að koma þessu öllu saman fyrir. Spilað var sleitulaust milli 9 og 17 bæði laugardag og sunnudag og skemmst er frá því að segja að framkvæmdin tókst gríðarlega vel. Alls tóku u.þ.b. 1500 iðkendur þátt um helgina og foreldrar fylgdu sem skýrir af hverju hvergi var löglegt bílastæði að finna í nágrenni Fylkissvæðisins.

Vissulega hefðum við þegið örlítið hagstæðara veður en allt gekk þetta þó vel fyrir sig og leikgleðin hreinlega skein af andlitum þátttakendanna.

Fyrstu helgina í október var haldið annað hliðstætt mót og þá var um að ræða 5. flokk karla og kvenna. Það mót gekk líka mjög vel með þátttöku u.þ.b 800 iðkenda. Núna í október mánuði höfum við þannig alls tekið á móti u.þ.b 2300 þátttakendum og líklega um 5000 forráðamönnum og það er trú okkar að með þessum mótum séum við búin að byggja grunn að fleiri mótum af sama toga á næstu árum. Hér er á ferðinni nýtt verkefni sem fór fyrst af stað fyrir 2 árum, Covid hafði svo sín áhrif en nú erum við komin vel á kortið aftur með þetta nýja framtak sem bæði hefur gríðarlega mikið félagslegt gildi fyrir Fylki auk þess að skila mikilvægum tekjum.

Þessi mót eru í raun risavaxin verkefni sem BUR hefur leitt en framkvæmdin gekk vel þar sem gríðarlega vel var að undirbúningi staðið. Sjálfboðaliðar á vegum BUR, foreldraráða, starfsmenn Fylkis og viðeigandi þjálfarar hafa skilað frábæru starfi á þessum mótum bæði í undirbúningnum og við framkvæmdina sjálfa. Bestu þakkir til allra þeirra sem gera svona verkefni möguleg.