,

Vel heppnað blakmót í Fylkishöll

Laugardaginn 12. mars hélt blakdeild Fylkis sitt árlega hraðmót í blaki. Það leiddu saman hesta sína 19 lið af höfuðborgarsvæðinu í 3 deildum, tveimur kvenna og einni karladeild.
Skemmtileg sérstaða blaksins er að þar geta nánast allir keppt við alla og sérstaklega skemmtilegt var að sjá að þátttakendur voru á öllum aldri en yngsta liðið var drengjalið Aftureldingar úr 3. flokki á meðan elstu þátttakendur fæddust árið 1949 og hefðu því hæglega geta verið langaafar hinna yngstu. Svo skemmtilega vildi til að þessi tvö lið mættust á mótinu og að þessu sinni fóru hinir eldri með sigur af hólmi.
Uppi sem sigurvegarar stóðu lið ÍS í 1. deild kvenna, lið frá Fylki í 2. deild kvenna og svonefndir HKarlar úr Kópavogi í karladeild. Fylki sendi 4 lið til keppni og stóðu þau sig öll með prýði og urðu m.a. í öðru sæti í karladeild og þriðja sæti í fyrstu deild kvenna.