,

Í dag kveðjum við Fylkisfólk góðan félaga

Jón Vilhálmsson lést á líknardeild Landsítalans föstudaginn 13. nóvember. Úförin fer fram frá Árbæjarkirkju mánudaginn 23. nóvember kl. 13 og verður streymt af : youtu.be/JLunPCX_xik .

Foreldrar sem eru tilbúnir til að fórna tíma sínum fyrir heildina eru ekki á hverju strái. Slíkir einstaklingar eru dýrmætir fyrir félagasamtök eins og Fylki.  Jón var slíkur einstaklingur, einn af þeim sem var óhræddur við að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið og gerði það vel og um langt árabil. Hann var ötull stuðningsmaður félagsins og byrjaði að taka þátt í störfum foreldraráða eins og svo margir fórnfúsir foreldrar gera. Árið 2007 tók hann að sér gjaldkerastöðu BUR eða Barna og unglingaráðs knattspyrnudeildar. Eftir nokkur ár í því hlutverki, sem er ærið, tók hann að sér formennsku í ráðinu og gegndi því í þrjú ár. Sem slíkur sat hann í stjórn Knattspyrnudeildar til loka árs 2012. Störf hans fyrir félagið voru ómetanleg, hvort sem það var utanhald um einstakar fjáraflanir, innheimta æfingagjalda eða rekstraráætlanir, allt var unnið að mikilli nákvæmni og fagmennsku. Hann hafði sterkar skoðanir á hvernig best yrði haldið utanum hlutina og fékk þar ýmsu framgegnt.

Jón fékk afhent silfurmerki félagsins árið 2010 fyrir vel unnin störf.

 

Andlát Jóns Vilhjálmssonar kom okkur  í stjórn deildarinnar í opna skjöldu.  Hann var oft á vappi í kringum völlinn s.l. ár til að fylgjast með leikjum Villa og var þá spjallað í léttum dúr um heima og geima og deildina sem er okkur svo kær. Tíminn flýgur og á tímum Covid er fólk að hittast minna og því urðu samverustundir ekki fleiri.

Jóns Vilhjálmsonar verður sárt saknað af Fylki.

Elsku Rósa, Vilhjálmur, Svavar og Erna Dís og barnabörn, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur við fráfall Jóns.

Fyrir hönd Knattspyrnudeildar Fylkis

Kjartan Daníelsson, formaður