,

Góð kvöldstund með iðkendum sem kveðja 2. flokk!

Góð kvöldstund með iðkendum sem kveðja 2. flokk!

Ungmenni sem fædd eru árið 2000 og voru að ljúka sínu síðasta ári í yngri flokka starfi Fylkis var boðið í létt spjall og veitingar þann 26. september síðastliðinn.

Boðið var upp á léttar veitingar ásamt því að Jón Steindór Þorsteinsson sem hefur þjálfað unga iðkendur félagsins til margra ára og Ólafur Ingi Skúlason fyrirliði meistaraflokks mættu og ræddu við hópinn. Rætt var um mikilvægi þess að halda í vinskapinn og að muna allar góðu stundirnar auk þess sem ungmennunum voru kynntar ýmsar leiðir til að halda áfram að spila knattspyrnu ef þau óska þess. Þau voru hvött eindregið til að halda áfram að vera virk innan félagsins hvort sem það verður sem leikmenn, dómarar, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða öflugt stuðningsfólk.
Formaður knattspyrnudeildar þakkaði þeim kærlega fyrir samveruna og allt þeirra framlag hingað til og færði þeim árskort á heimaleiki félagsins næsta sumar.

Margt af þessu unga og efnilega fólki hefur æft og spilað með félaginu í fjölda ára og vonandi hafa þau haft eins mikið gagn og gaman af verkefnunum eins og félagið hefur haft af því að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Knattspyrnudeild Fylkis er stolt af þessu unga fólki og vonar að þessi öflugi hópur haldi ávallt merki félagsins hátt á lofti, innan vallar sem utan og að þau horfi til baka á tíma sinn í yngri flokkum félagsins með hlýju í hjarta.

Á myndinni má sjá þá iðkendur sem höfðu tök á því að sitja kvöldstundina ásamt Jóni Steindór Þorsteinssyni og Ólafi Inga Skúlasyni.

Mynd frá Íþróttafélagið Fylkir.