,

Fylkir endaði í 2.sæti í Lenovo deildinni

Fylkir stofnaði á dögunum formlega rafíþróttadeild innan félagsins, en markmiðið er að bjóða upp á skipulagt starf fyrir börn og unglinga þar sem þau geta stundað rafíþróttir undir handleiðslu þjálfara. Mun meistaraflokkurinn skipa stórt hlutverk í barna- og unglingastarfinu. Ásamt því að stunda rafíþróttir læra iðkendur markmiðasetningu, sjálfsaga, ábyrgð og tilfinningastjórnun svo fátt eitt sé nefnt. Einnig verður lögð áhersla á reglulega hreyfingu, mataræði og góða hvíld en þetta eru þættir sem skipta miklu máli í allri íþróttaiðkun. Allt þetta rímar við það sem sést hefur í skipulögðu rafíþróttastarfi á Norðurlöndunum.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að koma deildinni á fót og stefnt er að því að hefja starfsemi næsta haust að afloknum kynningarfundi.

Rafíþróttalið Fylkis í tölvuleiknum Counter-strike:Global Offensive (CS:GO) tókst að tryggja sér annað sæti með mikilvægum sigrum á KR.eSports og Tropadeleet í lokaumferðinni. Tímabilið byrjaði brösulega og fóru okkar drengir hægt af stað en náðu svo að rétta af kútnum og tryggja sér annað sæti sem er frábær árangur fyrir þetta unga lið og okkar fyrsta rafíþróttalið.

Meistaraflokkur Fylkis í CSGO  samanstendur af 5 leikmönnum og einum liðsstjóra. Liðið hefur spilað saman í rúmt ár og er blanda af leikmönnum með reynslu sem hafa unnið mót og ungum strákum sem eiga framtíðina fyrir sér.
Liðið skipa þeir Andri Már „aNdrehh“ Einarsson, 25 ára, fyrirliði, Andri Þór „ReaN“ Bjarnason, 27 ára, Bjarni Þór „Bjarnii“ Guðmundsson, 18 ára, Böðvar Breki „Zolo^“ Guðmundsson, 18 ára og Kristófer Daði „ADHD“ Kristjánsson,  24 ára. Liðsstjóri er Aron Ólafsson.

 

Næst á dagskrá er úrslitakeppni í Lenovo deildinni þar sem Fylkir mætir tropadeleet í undanúrslitum þann 20. júní.