Arnar Grétarsson nýr aðalþjálfari karlaliðs Fylkis
Knattspyrnudeild Fylkis tilkynnir með ánægju að Arnar Grétarsson hefur samþykkt að taka við sem nýr aðalþjálfari karlaliðs Fylkis út keppnis tímabilið 2025.
Fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaðurinn, Arnar Grétarsson, mun taka við liðinu strax og verður hans fyrsta verkefni á föstudaginn, þegar Njarðvík kemur í heimsókn á Tekk völlinn. Arnar á að baki farsælan feril sem leikmaður með liðum á borð við Glasgow Rangers, AEK Aþenu og Lokeren, auk þess að hafa leikið 72 landsleiki fyrir Ísland.
Síðar starfaði hann sem tæknilegur ráðgjafi hjá AEK Aþenu og sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge, auk þess að þjálfa Breiðablik, Roeselare, KA og nú síðast hjá Val.
Mér finnst vera mikið upside í því að koma hingað til Fylkis. Hér er fullt af flottum leikmönnum, skemmtilegur völlur og ég hef verið að fylgjast með liðinu. Ég hef oft horft hýrum augum til Árbæjarins, bæði vegna aðstæðna, vallarins og Lautarinnar. Þegar þetta tækifæri kom upp var ákvörðunin því frekar einföld að mínu mati.
Sagði Arnar Grétarsson við undirskrift í dag
Stjórn Fylkis lýsir yfir ánægju með ráðninguna.
Við teljum Arnar rétta manninn til að leiða þetta unga og metnaðarfulla lið áfram og treystum honum til að byggja upp af krafti, bæði til skemmri og lengri tíma
Við bjóðum Arnari hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að fylgjast með þróun liðsins á næstu mánuðum undir hans stjórn.
Hér fyrir neðan má finna einlægt viðtal við Arnar Grétarsson, tekið við undirritun samnings í kvöld.