Á síðasta áratugi hefur verið mikil fjölgun iðkenda hjá fimleikadeild Fylkis. Iðkendur vorið 2019 eru nú um 500 börn og unglingar.
Árangur undanfarinna ára hefur verið mjög góður og er Fylkir með iðkendur á verðlaunapalli á nær öllum mótum sem við tökum þátt í á vegum FSÍ. Yngri flokkar eru fjölmennir og hafa náð góðum árangri jafnt á æfingum sem mótum.
Stefna fimleikadeildar er að á næstu árum verði komið hús með góðri áhorfendastúku, góðu aðgengi til að horfa á æfingar, fjölgun iðkenda, breiðari aldri iðkenda og að öllum líði vel á æfingu hvort sem iðkandinn æfir sér til skemmtunar eða í afrekshóp.
Að unnið sé eftir því æfingakerfi og fyrirkomulagi sem yfirþjálfari gefur út. Að allir þjálfarar hafi að minnsta kosti lokið þeim grunnnámskeiðum hjá FSÍ og að afreksþjálfarar hafi lokið sem flestum námskeiðum sem FSÍ býður upp á eða sambærilega menntun.
Huga þarf vel að grunni hjá öllum grunnhópum. Að gerðar séu réttar æfingar sem hentar viðeigandi aldri og getu, þ.e. með réttum grunnæfingum og teygjum, þreki, og fín- og grófhreyfingum.
Einnig þarf deildin að þjónusta vel afrekshópa sem þurfa að nýta sér þjónustu sjúkraþjálfara og bæklunarlækna, sem fimleikadeildin gerir í samstarfi við Atlas Endurhæfingar og nánu samstarfi við bæklunarlækni.
Fimleikadeild Fylkis vinnur eftir jafnréttisstefnu félagsins og reynir af öllu mætti að fara eftir þeim óháð kyni, trú, þjóðerni, aldri og félagslegri stöðu.
Fimleikadeild Fylkis hafnar allri stríðni/einelti og reynir að koma í veg fyrir það með fræðslu.
Fimleikadeild Fylkis vinnur eftir siðareglum félagsins.
Íþróttir barna og unglinga
1. Andi stefnunnar
Sú stefna sem hér er mælt með hefur það að leiðarljósi að íþróttaiðkun skuli vera þroskandi bæði líkamlega, sálrænt og félagslega. Með því móti má skapa aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga til að njóta sín innan íþróttahreyfingarinnar.
Með skipulegri og markvissri þjálfun eins og hér er lýst má skapa börnum og unglingum aðstæður til að verða afreksmenn seinna meir á lands- eða alþjóða mælikvarða þegar þeir hafa mesta líkamlega og sálræna hæfileika til þess. Að sama skapi er gert ráð fyrir að þeir sem ekki velja afreksmennsku eða keppnisíþróttir fái tækifæri til að stunda íþróttir eða líkamsrækt við sitt hæfi.
Varðandi þau aldursmörk sem gengið er út frá verður að gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi og sveigjanleika vegna mismunandi reglna sem gilda í hinum ýmsu íþróttagreinum og mismunar á þroskaferli milli kynja og einstaklinga.
Með neðangreindum aðferðum má tryggja mun meiri fjöldaþátttöku í íþróttum en áður hefur þekkst og skapa um leið aðstæður fyrir fleiri afreksmenn og meiri afrek en áður hefur þekkst.